140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

þingleg meðferð mála.

[15:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur beina því til frú forseta að skoða vinnulag í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvað þetta mál snertir. Það liggur alveg ljóst fyrir að málið fór ekki til umsagnar milli fyrri og síðari umr. þrátt fyrir að mikil gagnrýni hafi komið fram á málið við fyrri umr. málsins, jafnvel þó að tveir fyrrverandi hæstv. ráðherrar hafi lýst andstöðu við málið og jafnvel þó að margir aðilar sem alla jafnan senda inn umsagnir í mál í þinginu hafi gert mjög alvarlegar athugasemdir við þetta mál. Þrátt fyrir það allt sá meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ekki ástæðu til að málið fengi eðlilega þinglega meðferð.

Ég óska eftir því að frú forseti taki málið upp eða leiðrétti þann sem hér stendur ef ekki er eðlilegt að þingmál fari til umsagnar og fái það sem við köllum eðlilega þinglega meðferð. Það er að mínu viti ekki eðlileg þingleg meðferð þegar mál fá ekki að fara til umsagnar og eru keyrð út á tveimur og hálfum sólarhring (Forseti hringir.) án þess að hafa fengið þá umfjöllun sem eðlilegt er.