140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við erum að afgreiða heildstæða löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn sem hefur verið í vinnslu um langa hríð. Með þessu frumvarpi er lögð til ein heildstæð rammalöggjöf í stað 14 sérlaga um allar 33 stéttir heilbrigðisstarfsmanna. Með því móti nálgumst við lagaumhverfi nágrannalandanna.

Við 2. umr. var samþykkt tillaga meiri hlutans í velferðarnefnd um að fella á brott sérákvæði um lækna sem var í 13. gr. frumvarpsins enda bera, samkvæmt greininni, allir heilbrigðisstarfsmenn ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga sem til þeirra leita. Með því var alls ekki og er á engan hátt dregið úr lagalegri og faglegri ábyrgð lækna eða óvissa sköpuð um þá ábyrgð.

Ég tel algjörlega ónauðsynlegt, frú forseti, að taka þetta ákvæði inn núna aftur og hvet til þess að menn standi saman um afgreiðslu þingsins við 2. umr.