140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér 699. mál á þinginu sem fjallar um breytingar í Stjórnarráði Íslands. Hér er um að ræða lokahnykkinn á þeim stjórnkerfisumbótum sem hæstv. ríkisstjórn boðaði í stjórnarsáttmálanum við upphaf kjörtímabilsins. Þar var lögð fram sú stefna að fækka ráðuneytum í áföngum úr tólf í níu en nú stöndum við hér frammi fyrir tillögu um að fækka ráðuneytum úr tíu, sem þau eru núna, í átta. Hér er sá munur orðinn á frá stjórnarsáttmálanum að nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti og fjármálaráðuneyti verði gerð að einu ráðuneyti en við erum hér líka að setja á stofn nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Mig langar til þess í upphafi míns máls að leggja áherslu á það að þær miklu stjórnkerfisbreytingar sem hafa farið fram hér á undanförnum missirum eru til þess fallnar og til þess ætlaðar að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Í kjölfar efnahagshrunsins var auðvitað nauðsynlegt að endurmeta forgangsröðun í stjórnsýslunni í samræmi við verkefnin fram undan. Ég hygg að allir sanngjarnir menn geti sagt og viðurkennt að stjórnsýslan er orðin sveigjanlegri en um leið einfaldari og skýrari en hún var við upphaf kjörtímabilsins.

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sem er að finna á þskj. 1247 við þessa síðari umræðu en undir það rita auk mín hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl og Margrét Tryggvadóttir. — Við leggjum til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Ég hef hér í umræðum um fundarstjórn forseta fyrr í dag bent á að í lögum nr. 115/2011, í 3. málslið 1. mgr. 2. gr., segir um þingsályktunartillögu af þessi tagi, um áform um breytingar á Stjórnarráðinu, að tillagan skuli, með leyfi forseta: „borin undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu.“

Vegna þessara lagafyrirmæla voru þessi mál forgangsmál í vinnu nefndarinnar og tekið var skýrt fram í upphafi að þannig mundi það vera. Þannig skildum við lagafyrirmælin um að málið skyldi koma þegar til umræðu og til afgreiðslu.

Þetta mál var lagt fram á Alþingi 30. mars sl. Það var mælt fyrir því 17. apríl og því var vísað til nefndar daginn eftir eftir um tólf klukkustunda langar umræður hér í þingsal.

Nefndin hefur fjallað um málið á fimm fundum og fékk til sín gesti, 22 gesti, fékk til sín sérfræðinefnd, fékk til sín höfunda frumvarpsins og höfunda grunngagna og fulltrúa þeirra hagsmunasamtaka sem helst lýstu andstöðu við fyrirhugaða breytingu í aðdraganda málsins. Nefndin fékk einnig fulltrúa Starfsmannafélags Stjórnarráðsins á sinn fund og nefndinni bárust þrjú álit eða umsagnir.

Ég hef sagt það áður að ég tel að nefndarmenn hafi unnið vel og fagmannlega að þessu verki og ég vil aftur þakka samnefndarmönnum og nefndarritara óeigingjarna fundasetu, m.a. það að mæta klukka átta á morgnana og á þrjá aukafundi til þess að unnt yrði að ljúka vinnu við frumvarpið eins og lögin mæla fyrir um án óþarfatafa. Málsmeðferðinni lauk sem sagt 27. apríl í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, tæpum mánuði eftir að málið kom fram. Það er mitt mat, og ég vil endurtaka það, að það hefði ekki breytt niðurstöðu nefndarinnar að halda fleiri fundi eða fara frekar yfir þau gögn sem fyrir lágu.

Frú forseti. Í nefndarálitinu er rakið hverjir komu til fundar við nefndina. Hér er um það að ræða að í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Verði þessar breytingar samþykktar mun ráðuneytum, eins og ég sagði áðan, fækka úr tíu í átta.

Ég vil vegna þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram um að lítið samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila á frumstigum málsins vekja athygli á tvennu. Annars vegar því að meiri hluti allsherjarnefndar, sem fjallaði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráðið sem varð að lögum nr. 121/2010, lagði til að stofnun atvinnuvegaráðuneytis yrði frestað sem og umhverfis- og auðlindaráðuneytis og að áfram yrði unnið að undirbúningi og samráði vegna stofnunar þessara tveggja ráðuneyta þannig að allar fyrirhugaðar ráðuneytabreytingar næðu fram að ganga eigi síðar en áformað var samkvæmt frumvarpinu sem þá var til meðferðar.

Það var sem sé niðurstaða allsherjarnefndar að fresta stofnun þessara ráðuneyta, þess sem nú heitir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, vegna þess að þörf væri á lengra samráðsferli áður en boðaðar breytingar yrðu samþykktar. Þetta var niðurstaða hv. allsherjarnefndar, meðal annars vegna umsagna og áherslu hagsmunaaðila sem skiluðu umsögnum um það mál og þær umsagnir lágu auðvitað fyrir og liggja fyrir og nefndarmenn hafa að sjálfsögðu kynnt sér þær.

Nefndinni var kynnt hvað hefði gerst síðan málið var síðast til meðferðar á Alþingi, sem sagt í meðförum allsherjarnefndar eins og ég nefndi áðan. Og þar erum við komin að skýrslunni sem ég veifaði áðan mönnum til mikillar undrunar, það er skýrslan Greining á verkefnum ráðuneyta og viðhorfum hagsmunaaðila sem er hér að finna. Það er fyrirtækið Stjórnarhættir sem hefur tekið þá skýrslu saman að beiðni ráðherra vegna undirbúnings málsins og hún er mjög ítarleg. Hún er óvenjuleg um margt, þar koma öll helstu sjónarmið hagsmunaaðila fram og meðal annars að haldnir voru 15 fundir með fulltrúum 19 hagsmunaaðila, bæði félaga og samtaka þeirra, á síðasta hausti og ítarleg grein er gerð fyrir afstöðu einstakra samtaka til hugmynda um ný ráðuneyti atvinnu og nýsköpunar og umhverfis og auðlinda. Það kemur auðvitað fram í þessum gögnum að það er ekkert einhlít niðurstaða hagsmunaaðila að vera endilega með eða á móti einu ráðuneyti. Það líka rakið í þessari skýrslu þegar skiptar skoðanir eru meðal hagsmunaaðila til stofnunar hinna nýju ráðuneyta þannig að þetta eru ítarlegar upplýsingar og helstu röksemdir, eins og ég segi, viðkomandi samtaka koma þar fram.

Þá var einnig kynnt fyrir nefndinni álit sérstaks starfshóps sérfræðinga um skipan efnahags- og viðskiptamála innan Stjórnarráðsins frá því í febrúar á þessu ári, sem og upplýsingar um skipan ráðuneyta á því sviði á Norðurlöndunum og fleiri gögn sem varða undirbúning málsins, sem hefur verið allnokkur því þetta mál á sér miklum mun lengri aðdraganda og miklum mun ítarlegri undirbúningsvinna sem liggur fyrir en menn vilja hér vera láta. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur því ljóst að fram hefur farið umtalsverð samræða við hagsmunaaðila frá því að fyrri ráðuneytabreytingar voru samþykktar, eins og lögð var áhersla á í fyrrnefndu nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar.

Á fundum nefndarinnar komu fram áhyggjur af því að með sameiningunni yrðu þessi nýju ráðuneyti það stór að erfitt gæti reynst fyrir einn ráðherra að hafa yfirsýn yfir alla þá málaflokka sem yrðu á hans málefnasviði. Hlutfallslegt vægi hinna hefðbundnu atvinnugreina sjávarútvegs og landbúnaðar yrði til að mynda mun minna í nýju atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en nú er í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja sem jafnasta stöðu málefnaflokka í Stjórnarráðinu, þar á meðal nýrra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu, hugverkaiðnaðar og nýsköpunar. Í því samhengi leggjum við áherslu á nauðsyn þess að tryggja sérþekkingu á einstökum atvinnugreinum innan Stjórnarráðsins og að styðja sérstaklega við málaflokka sem verða sífellt mikilvægari fyrir þjóðarbúið, eins og ég hef nefnt, ferðamál og skapandi greinar. Í þessu sambandi vekur meiri hluti nefndarinnar athygli á því að í lögum nr. 115/2011 var breytt og fellt niður ákvæði um að ráðuneyti skuli lagt óskipt til eins og sama ráðherra. Það er því mögulegt að fleiri en einn ráðherra gegni embætti í ráðuneyti sem gæti komið til móts við þær áhyggjur sem menn hafa viðrað, og eru ekki óeðlilegar að mínu mati, að það geri verið erfitt fyrir einn ráðherra að hafa yfirsýn yfir fjölbreytta og marga málaflokka.

Hagsmunasamtök og hagsmunaaðilar sem komu fyrir nefndina — og það kemur líka fram í þeim gögnum sem fyrir nefndina voru lögð — höfðu mörg af því áhyggjur að hagsmunasamtök sem slík ættu erfiðara með að ná sambandi við ráðherra og koma erindum sínum áleiðis í stjórnsýslunni og það mundi aftur koma niður á skilvirkni við afgreiðslu erinda þeirra þegar ráðuneytin væru þetta stór. Auk þess var kvartað undan því að ekki væru ítarlegri útlistanir í athugasemdum með þingsályktunartillögunni á þeim breytingum sem boðaðar eru, einkum á stofnanaumhverfið. Á fundum nefndarinnar var farið almennt yfir kosti og galla þessara breytinga. Varðandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur meiri hlutinn áherslu á það að slíkt nýtt ráðuneyti tryggir jafnræði atvinnugreina, það verður auðveldara og það verður hægt að fá heildaryfirsýn yfir atvinnulífið og þar með bæta samhæfingu stjórnsýslunnar gagnvart því. Meiri hlutinn telur að með skýrari heildarsýn sé hægt að einfalda stoðkerfið og veita atvinnulífinu betri og skilvirkari þjónustu.

Hvað varðar umhverfis- og auðlindaráðuneyti telur meiri hlutinn að nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti sé til þess fallið að styrkja málaflokkinn og stjórnsýsluna innan hans. Það verður aðveldara í slíku nýju ráðuneyti að setja niður samræmda stefnu í auðlindamálum með almannahagsmuni að leiðarljósi fram yfir sérhagsmuni.

Nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti er ætlað það mikilvæga hlutverk að leggja grunn að sjálfbærri nýtingu auðlinda í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að sjálfbær nýting auðlinda til lands og sjávar er forsenda þess að þær skili varanlegum afrakstri og arði til samfélagsins alls. Samþætting nýtingar og verndar á grunni sjálfbærrar þróunar er því mikilvæg og sameiginlegt verkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og eins og fram kemur í athugasemdum með tillögunni er fyrirhugað að formgera samstarf ráðherranna í því skyni.

Nefndin ræddi yfirfærslu verkefna efnahags- og viðskiptaráðuneytis í nýtt fjármála- og efnahagsráðuneyti og um leið reynsluna af stofnun efnahags- og viðskiptaráðuneytis frá árinu 2009, en eins og ég vakti athygli á áðan var í upphaflegum áætlunum ríkisstjórnarinnar, og kemur fram í stefnuyfirlýsingunni, ætlunin að þetta yrðu tvö ráðuneyti, að það yrðu níu ráðuneyti í stað tólf en við erum hér að tala um að þau verði átta í stað þess sem nú er, tíu og voru tólf.

Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að styrkja enn betur og samræma almenna hagstjórn og málefni fjármálamarkaðarins. Við ræddum sérstaklega stöðu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins með vísan í fyrri umræður um mögulega sameiningu þessara stofnana, sem menn þekkja, en samkvæmt tillögunni munu þessar stofnanir nú aftur heyra hvor til síns ráðuneytis, Seðlabanki til fjármála- og efnahagsráðuneytis og Fjármálaeftirlitið og fjármálamarkaðurinn til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Fulltrúar Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins, sem komu að sjálfsögðu fyrir nefndina, vísuðu til þess að samstarf stofnananna hefði nú verið formgert og það hefði verið aukið verulega. Þessir fulltrúar töldu ekki tímabært að ganga lengra í þeim efnum við núverandi aðstæður og vísuðu sérstaklega á mikil tímabundin verkefni beggja stofnana við úrvinnslu mála eftir efnahagshrunið.

Það var bent á og fram komu þau sjónarmið að óheppilegt gæti verið að hafa lög um fjármálafyrirtæki, um fjármálamarkaði og fjármálaeftirlit undir fjármála- og efnahagsráðuneyti meðan ríkið væri stór hluthafi í bönkunum og undir það sjónarmið get ég tekið. Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram er þörf á góðu samstarfi milli fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og Samkeppniseftirlits vegna fjármálastöðugleika. Það samstarf þarf að efla og tillögur þar að lútandi hafa einmitt nú verið settar fram í nýrri skýrslu um framtíðarskipan fjármálakerfisins sem liggur fyrir Alþingi og kemur vonandi til umræðu innan tíðar.

Nefndin ræddi einnig á fundum sínum mikilvægi þess að tryggja samfélagslegt aðhald við hagstjórn til mótvægis við sterkt efnahags- og fjármálaráðuneyti. Það kemur fram í athugasemdum með þingsályktunartillögunni að fyrirhugað er að koma á fót sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði óháðra sérfræðinga til að leggja sjálfstætt og hlutlaust mat á efnahagsáætlanir og hagstjórn, en slík ráð eiga sér hliðstæðu bæði í Danmörku og í Svíþjóð. Meiri hlutinn tekur undir þessa hugmynd en leggur líka áherslu á mikilvægi þess að komið verði á fót efnahagsstofnun sem hafi með höndum rannsóknar- og upplýsingaskyldu og taki að sér verkefni ekki ósvipað því sem Þjóðhagsstofnun sinnti áður en hún var lögð niður, önnur en þau sem voru flutt annað eins og til að mynda þjóðhagsreikningarnir til Hagstofu. Meiri hlutinn telur að tilfinnanlega skorti hagspár og efnahagsspár sem byggjast á öðru en þeirri hagspá sem nú er unnin á Hagstofunni og í Seðlabankanum.

Í þessu samhengi vekjum við sérstaklega athygli á þingsályktun frá 28. september 2010, sem menn þekkja nú almennt undir heitinu 63:0 um að stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir Alþingi og hefur það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði til 1. júní 2002. Þessi samþykkt byggist á skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Meiri hlutinn hvetur til þess að brugðist verði við þessari samþykkt á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis hið fyrsta. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að sjálfstæði slíkrar stofnunar sé tryggt en tekur að öðru leyti ekki afstöðu til þess hvar hana eigi að vista en um það hafa komið fram þrjár eða fjórar tillögur sem er að finna í þessum gögnum, meðal annars að vista hana undir Alþingi, vista hana hjá Ríkisendurskoðun sem algjörlega sjálfstæða einingu eða undir einhverju ráðuneytinu. En við leggjum sem sagt bara fyrst og fremst áherslu á að það er mikilvægt að sjálfstæði slíkrar stofnunar sé tryggt.

Nefndin ræddi einnig kostnað vegna sameiningarinnar og á fundi nefndarinnar var lagt fram minnisblað með frumdrögum að kostnaðargreiningu vegna þess. Þar kemur fram að nokkrar útfærslur eru mögulegar og áætlaður kostnaður vegna þessara tillagna getur numið á bilinu 125–225 millj. kr., allt eftir því hvaða útfærsla er valin og þá er verið að tala um mismunandi útfærslur á húsnæði. Meiri hlutinn leggur áherslu á að farið sé í ítarlega kostnaðargreiningu áður en endanleg leið er valin því að þarna munar 100 millj. kr.

Frú forseti. Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á skipan og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Eins og ég nefndi áðan var það markmið ríkisstjórnarinnar, markmið sem hefur verið unnið skipulega að, og við erum nú á lokahnykknum í þeirri vegferð. Ef tillagan gengur eftir, eins og ég sagði, mun ráðuneytum hafa fækkað úr tólf við upphaf þessa kjörtímabils í átta þann 1. september nk. Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að reynslan af fyrri sameiningum hafi sýnt að sameining ráðuneyta hafi í för með sér mikla möguleika sem byggist á stærðarhagkvæmni með aukinni yfirsýn yfir málaflokkana, betri samskiptum við undirstofnanir, bættri þjónustu við borgarana auk hagkvæmni í rekstri, einkum stoðeininga og húsnæðis.

Markmið fyrirhugaðra breytinga sem við ræðum hér nú um fækkun ráðuneyta er ekki sparnaður fyrst og fremst heldur að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara og skerpa á og skýra verkaskiptingu milli ráðuneyta og bæta þjónustu við borgarana eins og ég nefndi áðan. Meiri hlutinn leggur áherslu á að í því breytingaferli sem fram undan er verði haft gott samráð við starfsmenn Stjórnarráðsins, upplýsingaflæði til þeirra verði styrkt og þess gætt að sá mannauður og sú þekking sem Stjórnarráðið býr yfir tapist ekki.

Frú forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1. janúar 2011 um sameiningu fjögurra ráðuneyta í tvö, sem kom til framkvæmda 1. janúar 2011, kemur fram það álit stofnunarinnar að vel hafi verið staðið að flestum þáttum við undirbúning og framkvæmd sameiningarinnar. Hins vegar er of skammur tími liðinn til þess að hægt sé að leggja mat á þær breytingar sem hafa orðið á þessum tíma frá 2009 og meiri hluti nefndarinnar telur því mikilvægt að forsætisráðuneytið láti vinna stöðumatsskýrslu eigi síðar en á árinu 2014 eins og reyndar kemur fram í athugasemdum með tillögunni að standi til .

Frú forseti. Ég hef lokið yfirferð yfir nefndarálit og afstöðu meiri hluta nefndarinnar. Ég vil við lok máls míns leggja áherslu á að hér er um að ræða skipulagsbreytingar á innra skipulagi Stjórnarráðsins, skipan ráðuneytanna sem slíkra og langur vegur þangað til undirstofnanir ráðuneyta verða fluttar eða þeim skipt upp. Við erum ekki að fjalla um það hér, við erum að fjalla um ráðuneytin.

Ég vil líka leggja áherslu á það sem ég gerði áðan að þetta er ekkert nýtt, menn þurfa ekkert að vera undrandi á þessum tillögum núna, það hefur legið fyrir allt frá því að ríkisstjórnin var stofnuð að til stæði að fara í þetta ferli. Fyrir mig er það sérstök ánægja að með þessum tillögum er hrundið í framkvæmd stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er að finna í þessari góðu, þykku og merkilegu bók um græna framtíð. Þar segir um stjórnsýslu umhverfismála, undir lok þessa rits, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð telji að efla þurfi umhverfisráðuneytið til mikilla muna, og jafnhliða mikilli eflingu þess þurfi að huga að tilfærslu verkefna milli annarra ráðuneyta og hugsanlegri fækkun þeirra, meðal annars uppbyggingu eins atvinnuvegaráðuneytis.

Síðan segir hér, með leyfi forseta:

„Rannsóknir á náttúruauðlindum lands og sjávar, verndun þeirra og áætlanir um nýtingu eiga að vera á forræði umhverfisráðuneytis sem vel færi á að kenna við umhverfi og auðlindir.“

Þessi bók var gefin út á árinu 2006 og það er mikil ánægja fyrir mig og okkur fulltrúa Vinstri grænna hér í þinginu að sjá lokahnykkinn á þessum tillögum ríkisstjórnarinnar um breytingar á Stjórnarráðinu eins og þær nú liggja fyrir og ég hef rakið að er að finna í þessari góðu bók. Atvinnuvegaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti heitir það nú og er enn betra, og síðan umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Ég hef lokið máli mínu, frú forseti, og legg til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt óbreytt.