140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Telur hv. þingmaður nægilegt að líta bara til húsnæðis varðandi kostnað og sparnað? Þarf ekki líka að líta til þeirrar röskunar sem þetta veldur í starfseminni því að stjórnsýslan er jú fyrir borgarana og ef verið er að hringla stöðugt í henni þá skaðar það borgarana, skaðar þjónustuna.

Svo bíð ég náttúrlega eftir svari við spurningunni um hvort teiknað hafi verið upp nýtt Stjórnarráð. Og eins hvar Hagstofan eigi heima, Hafrannsóknastofnun, Orkustofnun, Landsvirkjun og ýmsir aðrir aðilar sem eru núna að gæta auðlindarinnar. Ég bíð spenntur eftir svari frá hv. þingmanni.

Svo er það spurningin um tímasetninguna. Nú kemur þetta fram einu ári fyrir kosningar, fer í framkvæmd hálfu ári fyrir kosningar. Er ekki mjög líklegt að nýir flokkar, ný ríkisstjórn umbylti þessu aftur? Er það ekki eðlilegt? Er það ekki í takt við það sem menn eru að gera, að ný ríkisstjórn umbylti þessu og hvar stendur þá aumingja borgarinn og opinberu starfsmennirnir?