140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hún geri ekki nokkurn greinarmun á þeim aðdraganda sem er að breytingunum sem lúta að atvinnuvegunum og auðlindamálunum annars vegar og hins vegar þeim sem lúta að efnahagsmálunum og tilfærslu þeirra til fjármálaráðuneytis.

Ég nefni þetta vegna þess að það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að umhverfis- og auðlindaráðuneyti hefur verið á dagskrá þessarar ríkisstjórnar frá því að hún kom til starfa vorið 2009 og sameining atvinnuvegaráðuneytanna sömuleiðis. Hins vegar er yfirfærsla efnahagsmálanna til fjármálaráðuneytis ný hugmynd sem fyrst verður vart í kringum áramótin.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort ekki megi gera töluverðan greinarmun á þessum aðdraganda, m.a. hvað varðar greiningarvinnu, samráð og annað þess háttar, og hvort síðari liðurinn sem hefur hlotið miklu skemmri og minni skoðun hefði ekki þurft að hljóta aðra málsmeðferð en það sem snýr að atvinnuvega- og auðlindamálunum.