140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta er ólíkur undirbúningur og aðdragandi að því leyti að atvinnuvegaráðuneyti og auðlinda- og umhverfisráðuneyti hafa verið á teikniborðinu mörg undanfarin ár. En vegna efnahagsmálanna og kannski mikilvægis þeirra á undangengnum árum tel ég ekkert óeðlilegt að menn hafi skoðað og skoði stanslaust hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera á stjórnsýslunni til að koma til móts við þá miklu gerjun sem er á því sviði, bæði hvað varðar löggjöf og framkvæmd, ekki bara hjá okkur heldur einnig í Evrópu og um allan heim. Niðurstaðan af þeirri skoðun, eins og kynnt var fyrir nefndinni, er sú að það þurfi að efla þetta enn betur og koma því betur til samræmis við það sem er á öðrum Norðurlöndum eins og er rakið í athugasemdum með tillögunni sjálfri.