140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessari umræðu, það er ekkert nýtt að Vinstri grænir brjóti flokkssamþykktir sínar og kosningaloforð en það ættu kjósendur flokksins að vita nú þegar, eins og þingmaðurinn fór sjálfur yfir í ræðu sinni hér varðandi Evrópusambandsumsóknina.

Það hryggir mig að sjá að í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur meiri hlutinn náð að fylkja sér um að fá Hreyfinguna upp í með sér í þessu máli eins og öðrum og er það líklega stuðningur Hreyfingarinnar við núverandi ríkisstjórn sem heldur í henni lífinu og sérstaklega vegna yfirlýsingar um að nú eigi að fara að gera eitthvað í málefnum heimilanna og ekki síður að setja eigi stjórnarskrármálin á dagskrá þingsins aftur til að skapa enn meiri ófrið í þinginu, en þetta virðist einmitt vera nefndin sem þessi mál kristallast í.

Mig langar að spyrja í framhaldi af því: Telur þingmaðurinn að það sé meirihlutastuðningur við þessa tillögu í þinginu og hvers vegna er hér lagt til að fjölga ráðherrum og fækka ráðuneytum?