140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega ágætt að það upplýsist hér á þessum degi að Hreyfingin er að veita ríkisstjórninni stuðning í þessu máli, máli sem annars hefði fellt ríkisstjórnina. Það skal bara sagt hér því að tveir fyrrverandi ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa lýst því yfir að þeir séu andsnúnir því efni sem kemur fram í þingsályktunartillögu þessari og hyggjast ekki styðja ríkisstjórnina. Í ljósi loforða og ummæla ríkisstjórnarinnar, þessarar verklausu vinstri ríkisstjórnar, þegar hún tók við að hér ætti allt að vera opið og gegnsætt, allt uppi á borðum og hin svokölluðu slæmu vinnubrögð íslenskra stjórnmála ættu að vera að baki með því að víla og díla, þá er þetta athyglisvert. Þetta er komið hér fram og kristallast algjörlega með undirskrift fulltrúa Hreyfingarinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þessu máli.