140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða umfjöllun um afstöðu þeirra sjálfstæðismanna til þessa máls. Ég vil aðeins gera eina athugasemd við það sem hann sagði hvað varðar aðgang að þeim gögnum sem við leggjum til grundvallar afstöðu okkar.

Ég get tekið undir að þessi gögn hefðu mátt vera í þingsályktunartillögunni sjálfri, en ég vek athygli á því að þetta eru engin leynigögn. Þau er að finna undir málinu á vef Alþingis og eru öllum opin og aðgengileg. Þar er í rauninni uppfyllt það sem hv. þingmaður sagði áðan.

Ég velti fyrir mér einu, hv. þingmaður segist hafa áhyggjur af því varðandi atvinnuvegaráðuneytið að aðgangur að ráðherra eða stjórnsýslunni batni ekki hjá öllum þeim sem bæta á inn í nýtt ráðuneyti. Á bls. 12 í þessari greiningu kemur fram að af átján starfsmönnum í iðnaðarráðuneyti er aðeins einn starfsmaður á skrifstofu ferðamála. Við höfum auðvitað margoft rætt þetta og spurning er hvernig hægt er að efla til að mynda stjórnsýslu og stuðning við þessa vaxandi og mikilvægu atvinnugrein. Er það bara með því að fjölga starfsmönnum í iðnaðarráðuneyti sem sett var á laggirnar fyrir einhverjum áratugum? Eða er það ekki rétt stefna eins og hér er gert að þétta þessa málaflokka og leggja saman í eitt ráðuneyti starfsemi iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis með þeim starfsmönnum sem þar eru sem væru þá 60 starfsmenn? Ætla mætti að með slíku væri hægt að sinna betur hlutum eins og ferðamálum, eins og nýsköpun. Að mínu mati er það (Forseti hringir.) ótvírætt. Ég vil spyrja hv. þingmann um álit.