140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vísa til þess sem ég sagði í ræðu minni og við segjum í nefndarálitinu að breytingar á ráðuneytum hljóta að eiga sér stað með reglulegu millibili. Það hlýtur að fara fram endurskoðun og það hlýtur að fara fram breyting á fyrirkomulagi og skipulagi mála innan Stjórnarráðsins eins og annars staðar, það er eðlilegt.

Að sumu leyti kann að vera erfitt að sætta ólík sjónarmið en við teljum þó engu að síður að það verði að vera sem víðtækust sátt um þetta. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að þau fjölmörgu hagsmunasamtök sem leitað var til og hafa afskipti af þessum málum hafa mismunandi sjónarmið í þessum efnum. Það er eiginlega sammerkt að í ferli þessa máls hefur verið hlustað á þá sem verið hafa sammála hinni upphaflegu tillögu sem fram kom í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vorið 2009, en ekki hlustað á þá sem voru henni andvígir. Það er bara þannig að greiningarvinnan og vinnan í allri málsmeðferðinni hefur ekki leitt til neinnar breytingar á tillögunni sem lá fyrir þegar vorið 2009.