140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að koma inn í þá umræðu sem átti sér stað hér á undan í andsvörum. Menn kunna alveg tökin á því að skýra þetta, þetta er bara kallað upplýsingafulltrúar og svoleiðis sem búið er að hrúga inn í stjórnkerfið, framkvæmdarvaldið kann það allt saman.

Hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á kostnaðinn sem hefði hlotist af sameiningu ráðuneytanna 2010 og 2011 og vitnaði til svars sem hv. þingmaður hafði fengið. Þegar við ræddum málið í fyrri umr. var þetta var eitt af þeim atriðum sem ég kom töluvert inn á í ræðu minni af því að niðurstaðan var sú að þetta kostaði 243 millj. kr. en lagt var upp með 160 millj. kr. Núna kemur fram í meirihlutaáliti að gert sé ráð fyrir 125–225 millj. kr. eftir því hvaða leið er farin. Ég verð að viðurkenna að miðað við reynsluna af fyrri sameiningu hefur maður áhyggjur af því að þessi kostnaðar verði miklu hærri. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún hafi áhyggjur af því að þessi kostnaður muni verða meiri, sem væri náttúrlega mjög sérstakt á tímum þar sem verið er að skera niður.

Þá vil ég líka spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um að það eigi að gera þessar breytingar rétt í lok kjörtímabilsins, þ.e. að á síðustu mánuðunum sé farið í þessar breytingar án þess að leita víðtæks samráðs og samstöðu um það. Það er hugsanlegt að strax eftir næstu kosningar komi önnur ríkisstjórn og þá verður kannski farið að hringla og breyta öllu aftur af því að það vantar samráð og samstarf í þetta ferli. Er hv. þingmaður sammála mér um það eða hver er skoðun hv. þingmanns á þessum vinnubrögðum hjá hæstv. ríkisstjórn?