140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Þar sem ég kem beint af fundi atvinnuveganefndar, hljóp hér á milli húsa, biðst ég forláts á því að vera aðeins móður í fyrstu. Af því að ég er að koma af þeim fundi, þar sem við vorum að fjalla um fiskveiðistjórnarkerfið, ætla ég að byrja á þeim hluta ræðu minnar sem snýr að því sem ég tel vera ranga nálgun að breytingum á Stjórnarráðinu. Ég sakna þess að í meðförum hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi ekki verið farið ofan í það.

Nú veit ég vel að það er yfirlýstur vilji núverandi ríkisstjórnar að breyta Stjórnarráðinu með því að stofna eitt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og færa hluti þar saman sem að sumu leyti hafa í augum okkar talist óskyldir og eins að færa hluta af verkefnum til nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Ég hef ásamt þó nokkrum öðrum spurt hvaða forsendur liggi að baki slíkum breytingum.

Mér fannst í fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu og reyndar í fyrri umræðum um þessa stjórnarráðsbreytingu — því að þetta er jú ekki í fyrsta sinn sem hæstv. forsætisráðherra reynir að breyta stjórnarráðsskipuninni með þessum hætti — og einnig í viðbrögðum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skorta á að menn velti því fyrir sér hvers vegna verið er að þessu. Hvað er það í samfélagi okkar sem kallar á að skynsamlegt sé að breyta núverandi skipan, þar sem ekki er komin mjög mikil reynsla á samlagningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, og leggja iðnaðarráðuneytið þar saman við og stokka upp spilin á milli þessa nýja ráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Því hefur verið haldið fram margítrekað, og meðal annars hefur það kannski verið yfirtónn margs þess sem núverandi ríkisstjórn hefur haldið fram, að hér sé verið að breyta öllu í takt og anda þess sem er á Norðurlöndum og þá í anda þess að ríkisstjórnin kallar sig norræna velferðarstjórn, sem mér ásamt mörgum öðrum finnst reyndar vera orðin öfugmæli. Meðal annars hefur ríkisstjórnin líka talað um að hún hafi mikinn vilja til að breyta umræðuhefð og stjórnsýsluákvörðunum í anda þess sem við þekkjum á Norðurlöndum og væri nú jákvætt ef svo væri.

Hvernig er þá staðan á Norðurlöndum? Í skýrslu sem starfshópur tók saman og fylgir hér, skýrslu sem nefndin fékk á sínum tíma, er farið yfir það hvernig þetta er á öðrum Norðurlöndum. Ég hef haldið því fram að við ættum að setja stjórnarráðsskipan okkar upp með þeim hætti að það endurspeglaði betur hve atvinnuvegirnir skipta gríðarlega miklu máli hjá okkur en ekki eftir því hvernig hlutirnir líta út í Vestur-Evrópu. Ég minni í því sambandi á umræðu um græna hagkerfið, sem var gott plagg sem var samþykkt af öllum þingmönnum, að ég held, menn sameinuðust um það. Þó kom það fram í einni af merkilegustu gagnrýninni á það að þar væri kannski ekki tekið tillit til íslenskra séraðstæðna heldur væri miklu frekar verið að vísa til aðstæðna í Vestur-Evrópu.

Ég hef haldið því fram að verið sé að breyta Stjórnarráðinu vegna þess að komið hafi krafa um það í tengslum við Evrópusambandsviðræðurnar. Þegar maður fer að skoða fylgigögn sem fylgja starfshópnum, um það hvernig hlutirnir eru á Norðurlöndunum, erum við á margan hátt kannski líkust Noregi. Þar er alla vega öflugur sjávarútvegur, þar er landbúnaður og þar er mikil orkunýting, bæði vatnsaflsnýting en ekki síst í olíunni. Á móti má segja að Danmörk er með gríðarlegan landbúnað, ekki eins mikilvægan sjávarútveg og Svíþjóð síðan allt annað.

Hvernig er þetta nú í þessum löndum? Erum við að taka upp eitthvað sem er norrænt og er eins og í Noregi? Ef við til að mynda lítum á Svíþjóð, sem er þekkt fyrir að vera með mjög stór ráðuneyti eins og rætt hefur verið hér — og það eru þá kannski líkindin — þá er til að mynda ráðuneyti landsbyggðarmála, svokallað Landsbygdsdepartementet. Það hefur hjá sér landbúnað, fiskveiðar, matvæli, skógrækt, veiðar og stjórnun villtra dýra — eins og við þekkjum er það komið hér í umhverfisráðuneyti — auðlindir og umhverfismál, rannsóknir og menntun í málefnum landbúnaðar, skógræktar, landskipulags, garðyrkju, dýralækninga, svo að ég nefni bara nokkra þætti; lífræna ræktun, neyslu, málefni hreindýra og landsbyggðarþróun — eðlilega tekið tillit til þess sem þar er sérstaða fyrir.

Eru Svíar þá ekki með neitt umhverfisráðuneyti? Jú, Svíar eru með umhverfisráðuneyti, Miljödepartementet. Þar inni eru ekki þeir þættir sem við ætlum að setja í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þar er aftur á móti stefna í eiturefnamálum, stefna í loftslagsmálum, gæðamarkmið, lagarammi í umhverfismálum, geislavarnir, sorpmál, stefna í skipulags- og húsnæðismálum og fleira, sjálfbær þróun. Stofnanaskipulagið er þar af leiðandi bundið því.

Danmörk, sem við vorum líka sammála um hér áðan að væri kannski ekki alveg eins lík okkur, er með mjög öflugan landbúnað sem útflutningsgrein en sjávarútvegur skiptir kannski minna máli þó að hann sé vissulega mikilvægur. Þar hafa menn eitt matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti. Það var hins vegar annað ráðuneyti atvinnuvega- og vaxtar, Erhvervs- og Vækstministeriet, en matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, Ministeriet for Fødevarer, Landbrug og Fiskeri. Þar inni eru matvælamál, fæðuöryggi, ráðgjöf um heilsusamlega nýtingu matar og máltíðar, lífrænar matvörur, loftslagsmengun er varðar framleiðslu og neyslu matvæla, eftirlit, flutningur og útflutningur á matvælum. Auk þess eru landbúnaðarmál og umhverfismál er tengjast landbúnaði, lífrænn landbúnaður, dýrahald og annað í þeim dúr, fiskveiðistefna, eftirlit, fiskitölfræði, sjálfbærni í sjávarútvegi og þolmörk fiskstofna. Einnig er ráðuneytið í samvinnu við rannsóknarstofnanir háskóla er stunda rannsóknir á matvöru, landbúnaði og sjávarútvegi. Hér fer ég nokkuð hratt yfir sögu og stofnanirnar sem tilheyra því eru tengdar þessu. Í Danmörku er líka til umhverfisráðuneyti, Miljøministeriet, og þar eru, af þeim þáttum sem við erum að tala um að færa hér til, til að mynda ráðstafanir gegn mengun í landbúnaði, veiðar, útdeiling veiðileyfa og umsýsla með ríkisskógum. Annars er þetta fyrst og fremst kortagerð, stefna í umhverfismálum, þróun borga, landsvæða- og skipulagsmál. Ég tel að ef við tökum þessi tvö lönd séum við ekki, með þeim breytingum sem verið er að tala um hér í dag, að færa okkur nær hinu danska eða sænska kerfi.

Ísland er kannski líkast Noregi af Norðurlöndunum hvað það varðar hve mikilvægt það er að nýta auðlindir landsins. Norðmenn hafa atvinnuvega- og viðskiptaráðuneyti. Það fjallar hins vegar ekki um landbúnað og ekki um sjávarútveg. Norðmenn hafa sérstakt landbúnaðar- og matvælaráðuneyti, Landbruks- og matdepartementet, sem fjallar um alla þá þætti sem þar eru, dýr, landbúnað, þróun, nýtingu jarða, umhverfismál og svæðastefnu, rannsóknir í landbúnaði og matvælum, jafnrétti, matvæli, hreindýr, skóga, líforku og lífræna matvælaframleiðslu. Stofnanirnar tengjast þar af leiðandi rannsóknum, matvælaeftirliti og dýramálastofnun og öðru í þeim dúr.

Norðmenn hafa líka sjávarútvegs- og strandmálaráðuneyti, eða Fiskeri- og kystdepartementet, þar sem undir eru fiskeldi, fisktegundir, fiskveiðar, hafsvæði og umhverfi strandlengju, rannsóknir á hafsvæðum og nýsköpun, viðbúnaður vegna olíumengunar, stjórnsýsla fiskveiða, öryggi á hafinu, markaðsmál og annað í þeim dúr, eftirlit með gæðum. Þar inni eru stofnanir sem heyra undir það ráðuneyti, fiskveiðistofnun, strandlengjustofnun, hafrannsóknastofnun, rannsóknastofnun fæðu og sjávarfangs.

Ástæðan fyrir því að ég byrja ræðu mína á þessu er að sýna fram á að við erum ekki að færa okkur, með þeim breytingum sem hér eru lagðar til, í átt að hinu norræna samfélagi. Við erum að færa okkur til einhvers annars, því að þar leggja menn áherslu á að hafa ráðuneyti sem tengjast þeim atvinnugreinum sem þeir byggja efnahag sinn á. Það þýðir að mínu viti að við hefðum ekki átt að fara í þær breytingar sem hæstv. forsætisráðherra hefur keyrt hér hvað harðast í gegn, að búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti, og við ættum alls ekki að fara að blanda Fjármálaeftirliti eða öðrum slíkum eftirlitsstofnunum inn í það atvinnuvegaráðuneyti eins og hér hefur verið lagt til.

Það er öllum ljóst að sjávarútvegur er okkar mikilvægasta atvinnugrein. Sjávarklasinn velti á árinu 2011 um 400 milljörðum og í honum starfa um 35 þúsund manns. Landbúnaðarklasinn hefur ekki verið tekinn saman en hann er líka nokkuð umfangsmikill og ég held að það væri nær að við héldum þessu í því ásigkomulagi sem við höfum haft í stjórnkerfinu, þ.e. eins og við höfum haft það undanfarin ár og létum á það reyna hvort það væri góð reynsla sem út úr því kæmi, án þess að fara að blanda öðrum málum þar inn í.

Í meðförum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur því miður ekki verið tekið tillit til þessara þátta. Það kom fram í umræðum fyrr í dag, þegar við vorum að greiða atkvæði um frumvarp um heilbrigðisstarfsmenn, að lögð hefur verið mikil vinna í það — það hefur komið hér fram á þremur þingum og menn hafa leitað eftir umsögnum og hafa breytt einhverju í hvert sinn, enda var niðurstaðan sú að 41 þingmaður, ef ég man rétt, greiddi því atkvæði og enginn var á móti, allir þeir sem hér voru í salnum.

Því segi ég: Það er verulegur munur á vinnubrögðunum sem voru við það frumvarp og þá þingsályktunartillögu og þá vinnu sem hér er við Stjórnarráðið, gríðarlegur munur á vinnubrögðum. Þrátt fyrir að sá hv. þingmaður sem er framsögumaður og verkstjóri, svo að ég vísi til eigin orða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur — hún sagði í dag, ef ég man rétt, frú forseti, að það væri sitt mat — þ.e. mat þingmannsins á eigin vinnubrögðum, það er mín túlkun — að þetta hafi verið vel unnið, þetta stjórnarráðsplagg, án þess að reynt hafi verið að svara fyrir það af hverju við erum að færa til að mynda í þetta atvinnuvegaráðuneyti ýmis óskyld mál, af hverju við erum að veikja grunn þeirra grunnatvinnuvega sem við höfum í landinu, sjávarútvegs og landbúnaðar annars vegar og svo iðnaðar og orkunýtingarinnar hins vegar. Af hverju erum við að því við þessar aðstæður? Ég tel að vinnubrögðin séu verulega ámælisverð og það dugi ekki til að einn hv. þingmaður, sem vissulega er bæði framsögumaður og verkstjóri, segi að það sé sitt mat að þetta sé nægilega gott.

Ég get aftur á mót tekið undir það, þar sem sá ágæti þingmaður var formaður velferðarnefndar, og talaði hér um hvernig vinnan við heilbrigðisstarfsmennina var, að það voru verulega góð vinnubrögð og árangurinn eftir því, niðurstaðan er sú að um það náðist gríðarleg samstaða. Nú er það svo, frú forseti, að það skiptir gríðarlegu máli að víðtæk sátt náist, eða við skulum segja víðtækari sátt en minnsti mögulegi meiri hluti, stjórnarmeirihluti, eins og nú er fyrir því að breyta stjórnarráðsskipaninni einu ári áður en kjörtímabilinu lýkur. Nú er það ekki einu sinni svo að það sé meiri hluti innan stjórnarliðsins fyrir þessum breytingum. Það hefur komið fram að tveir fyrrverandi þingmenn stjórnarliðsins, hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Árni Páll Árnason, sem báðir voru ráðherrar, eru á móti þessum breytingum og á móti þessari þingsályktun, þannig að ríkisstjórnin hefur ekki meiri hluta í þessu máli og þarf að treysta á að einhverjir aðrir skeri hana úr þeirri snöru úr því að ríkisstjórnin leggur gríðarlega áherslu á að breyta stjórnarráðsskipaninni korteri fyrir þrjú eins og stundum er sagt.

Ég ætla á síðustu mínútum mínum, frú forseti, að vitna í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar, við fyrri umræðu um þingsályktunartillöguna, þar sem hann taldi að breytingin er varðaði efnahags- og viðskiptaráðuneytið og uppskiptingu þess og niðurlagningu — að hans mati var það óunnið. Það var órætt utan ríkisstjórnarinnar sjálfrar og að auki órökstutt. Ég spurði hv. þm. Birgi Ármannsson fyrr í dag, af því að ég hafði ekki tækifæri til að ræða við hv. framsögumann í andsvari, hvort gerð hefði verið tilraun til þess í meðförum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að rökstyðja þetta eitthvað frekar þannig að hv. þm. Árni Páll Árnason, forustumaður í Samfylkingunni, teldi að þeim spurningum sem hann varpaði fram í ræðu sinni í síðustu viku hefði verið svarað með einhverjum hætti.

Hann sagði hér, með leyfi forseta:

„Það vantar algerlega einhverja umfjöllun um það hér af hverju er verið að hvika frá þeirri hugmynd og þeim efnisrökum sem sett hafa verið fram um mikilvægi ráðuneytis almannahagsmuna eins og efnahagsráðuneytið átti að vera, ráðuneyti sem færi með almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni einstakra atvinnugreina. Það er ekkert fjallað um kosti eða galla þeirrar hugmyndar og satt að segja er rökstuðningurinn fyrir þessari breytingu með því allra rýrasta sem sést hefur, held ég, í sögu breytinga á Stjórnarráðinu, rétt röskar tvær blaðsíður og engin efnisleg greining sett fram.“

Hæstv. forsætisráðherra sagði að til væru gögn og þau gögn eru skýrsla starfshópsins sem ég vitnaði hér til áðan. Ég verð að segja eins og er að þar finnst mér þessi rökstuðningur ekki vera nægilegur. Þar er opnað á ýmsar leiðir sem hægt væri að fara til að styrkja efnahags- og viðskiptaráðuneytið án þess að taka U-beygju frá því sem ríkisstjórnin tók í upphafi kjörtímabilsins og ræddi margoft; taldi algjörlega nauðsynlegt að byggja upp öflugt efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Eftir hið mikla efnahagshrun fóru menn að leita leiða til að finna lausnir og talið var skynsamlegast að byggja upp efnahags- og viðskiptaráðuneyti og styrkja það. Það er því mjög sérkennilegt að allt í einu við ráðherraskipti — það kom líka fram í andsvari við áðurnefndan hv. þm. Árna Pál Árnason, í fyrri umræðu, að þetta hafi ekki verið rætt í hans tíð í ríkisstjórn. Hugmyndir um einhvers konar uppskiptingu ráðuneytisins voru þá fyrst og fremst viðraðar í tengslum við breytingar á ríkisstjórn um síðustu áramót.

Frú forseti. Mér finnst það vera veik rök þegar maður hefur það á tilfinningunni að við uppstokkun á ráðherrum, einstökum persónum ráðherra, verði það allt í einu ofan á að leggja niður þá tillögu sem ríkisstjórnarflokkarnir börðust hvað harðast fyrir hér í upphafi, og sett var inn í stjórnarsáttmála, að hér ætti að byggja upp sérstakt efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði líka, hann vildi ekki tala fyrir aðra þingmenn stjórnarflokkanna en sjálfan sig, að hann mundi ekki styðja mál er varðaði niðurlagningu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Honum fannst sérkennilegt að fara í það núna án þess að um það væri umtalsverð samstaða, sem ég held að við getum fullyrt að sé ekki. Við í stjórnarandstöðunni höfum talað mjög gegn þessum breytingum og minnsti mögulegi meiri hluti virðist vera fyrir þessu hér í þinginu, (Forseti hringir.) ef hann er þá til staðar. Ég tel að þetta sé óráðlegt og ég legg til, frú forseti, að ríkisstjórnin taki þetta mál til sín og taki það af dagskrá svo að við getum farið að tala um önnur og mikilvægari mál sem eru á dagskránni í dag.