140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir upplýsandi umfjöllun um skipan atvinnuvega og auðlindamála á Norðurlöndunum vegna þess að þetta eru upplýsingar sem hefðu vissulega átt erindi inn í þessa umræðu miklu fyrr miðað við það sem haldið hefur verið fram hér oft og tíðum í þessari umræðu.

Vegna þess að ég tel að hv. þingmaður hafi nokkra innsýn í það eftir setu sína í svokallaðri þingmannanefnd vorið og sumarið 2010 ætlaði ég að spyrja hvort hann sjái mikið í þessu þingmáli sem á rætur að rekja til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eða þingmannanefndarinnar. Ég nefni þetta vegna þess að í opinberri umræðu eru eiginlega flestar breytingar sem hæstv. ríkisstjórn mælir fyrir rökstuddar með óljósum tilvísunum til skýrslu rannsóknarnefndar, þingmannaskýrslu o.s.frv. Mér er hins vegar ekki ljóst hver hin efnislegu tengsl eru milli þessara skýrslna og síðan þess þingmáls sem við hér ræðum og ég bið hv. þingmann að deila því með okkur hvernig hann sjái nákvæmlega þann flöt á málinu.