140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að almennt sé rétt að ráðuneytin séu of veik þó að þau séu vissulega skipuð ágætisfólki. Ég held að sú þróun sem hefur orðið á liðnum árum í þessari kreppu feli í sér að stofnanir undir ráðuneytunum hafi styrkst á kostnað ráðuneytanna. Mörg af þessum ráðuneytum eru of fáliðuð og ég held að til lengri tíma litið, þegar við förum að hafa efni á að gera betur, munum við leggja meira fjármagn og fjölga starfsmönnum í ráðuneytum. Ég bendi á að þá sé kannski skynsamlegt að taka starfsmenn úr ákveðnum stofnunum og það sé hægt að færa þá inn í ráðuneytin. Ég held að stofnanirnar hafi í raun fengið aukið vald og aukið fjármagn og hafi fengið svolítið að valsa um. Maður sér það best ef maður fylgist með fjölda starfsmanna þar í ýmsum ráðuneytum.

Hvað varðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur til að mynda Matvælastofnun þanist út en ef við horfum á lista eins og Norðmenn setja upp, þ.e. hvaða málefni eru undir í ráðuneytunum, mundi ég vilja sjá, af því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson spurði um veikleikana, þessa þróun landbúnaðar og atvinnulífs, þ.e. landbúnað í sveitarfélögum, landbúnað umhverfismála og svæðastefnu og rannsóknir í landbúnaðarmatvælum. Hv. þingmaður spurði akkúrat um landbúnaðinn. Jarðir sem nýttar eru við landbúnað, jafnrétti í landbúnaði og lífræn matvælaframleiðsla, þetta er allt áhugavert og ég hefði viljað sjá ráðuneytið öflugra á öllum þessum sviðum. (Forseti hringir.) Ég tel að það séu alveg efni til þess að styrkja ráðuneytið en ég er sannfærður um að það að leggja það undir eitt atvinnuvegaráðuneyti sé röng leið til að styrkja þessa þætti.