140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur svo sem komið ágætlega fram í máli hv. þingmanns, framsögumanns, og reyndar í mörgum ræðum að það er búið að vera heilmikið samráð eða við skulum segja að það sé yfirlýst stefna stjórnarmeirihlutans að stofna þetta atvinnuvegaráðuneyti. Það er hins vegar gegn vilja þeirra sem kallast hagsmunaaðilar í greininni. Sumir hafa notað það sem mjög jákvæð rök að þess vegna sé nauðsynlegt að breyta. Sumir líta á hagsmunaaðila sem eitthvað einstaklega neikvætt og að það verði alltaf að gera þvert á vilja þeirra. Aftur á móti hefur þessi starfshópur talað við fjöldann allan af fólki og ég veit að gestir komu á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þeir komu reyndar ansi margir í senn og fengu ekki mikinn tíma og stundum komust menn ekki á þeim tíma sem þeir áttu og tilheyrðu kannski ákveðnum hópi og komu þá bara með einhverjum allt öðrum þannig að það skapaðist lítil umræða í nefndinni. (Forseti hringir.)

Ég held að lykillinn að breytingum sé samráð og að ná víðtækri samstöðu, ekki síst þegar innan við eitt ár er eftir af kjörtímabili viðkomandi ríkisstjórnar.