140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þingmann á að Ríkisendurskoðun gaf undirbúningnum að síðustu breytingum í Stjórnarráðinu mjög góða einkunn og það þýðir ekkert að líta fram hjá því. Þessi ríkisstjórn ætlar náttúrlega að sitja mörg ár í viðbót þannig að hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að mikið verði hringlað með þetta eftir árið.

Ég ætla ekki að fara að túlka skoðanir fyrrverandi hæstvirtra ráðherra á þeim breytingum sem gerðar eru á ráðuneytum sem þeir fara frá. Ég ætla ekki að gera það. En hv. þingmanni til upplýsingar vil ég segja að hér var rætt á árinu 2007, við þær breytingar sem ég nefndi á Stjórnarráðinu, og voru mjög viðamiklar, í innan við þrjár klukkustundir í þingsal um þær viðamiklu breytingar allar. Það lá engin greiningarvinna fyrir og hv. þm. Birgir Ármannsson, sem fór fyrir þeim breytingum, taldi þær vera mjög til bóta (Forseti hringir.) og vinnubrögðin góð.