140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:41]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka þátt í síðari umr. um þetta mál, um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Ég tók líka til máls við fyrri umr. og hélt kannski að málið kæmi ekki aftur til síðari umr., að menn mundu hætta við málið. Svo er ekki, þannig að mig langar að ítreka þau viðhorf sem ég hafði í fyrri umr. og fara aðeins yfir þá sögu sem Framsóknarflokkurinn hefur að baki í þessu.

Það er alveg rétt sem hér kom fram í andsvörum áðan að auðvitað hafa verið gerðar breytingar á Stjórnarráðinu við og við og ég held að þær hafi yfirleitt verið til bóta. Framsóknarflokkurinn fór á sínum tíma í mikið starf innan flokksins um skipan Stjórnarráðsins. Sett var á fót heilmikil nefnd sem í voru fulltrúar allra kjördæma, tveir fulltrúar úr öllum kjördæmum. Fyrsti formaður í þeirri nefnd var Ólöf Vilhjálmsdóttir lögfræðingur og síðan tók Gísli Tryggvason lögfræðingur við nefndinni þegar Ólöf hvarf til starfa erlendis.

Þessi nefnd vann heilmikið starf og skoðaði hvernig þessum málum var háttað erlendis, aðallega á Norðurlöndunum, og lagði fram tillögur til flokksins. Þær tillögur voru síðan samþykktar og urðu stefna Framsóknarflokksins.

Ég hef kosið í umræðum um þetta, og þetta er ekki fyrsta umræðan sem við tökum í þinginu um breytingar á Stjórnarráðinu, að rifja þetta upp af því að mér finnst mikilvægt að halda sögunni til haga. Ég tel að unnið hafi verið gott starf að þessum málum í flokknum á sínum tíma — og það er ekki langt síðan — og ég tel að þær niðurstöður hafi verið mjög eðlilegar sem við komumst að þá. En hugmyndafræðin í niðurstöðum okkar var sú að það ætti að vera ríkisstjórn hvers tíma sem réði þessum málum alfarið, þ.e. það átti að vera hlutverk framkvæmdarvaldsins, hlutverk ríkisstjórnarinnar að skipa ráðuneytum og ákveða hvað félli undir hvert ráðuneyti en ekki löggjafans. Þarna átti að vera fullkominn aðskilnaður milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Við erum auðvitað ekki að ræða dómsvaldið hér heldur aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þetta var alla vega niðurstaða okkar á sínum tíma og það voru fleiri tillögur eins þær að geta verið með aðstoðarráðherra, að stofna atvinnuvegaráðuneyti o.s.frv. Þannig að það er samhljómur í ýmsu sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna að og þeirri stefnu sem Framsóknarflokkurinn samþykkti.

Ég man að Samband ungra framsóknarmanna skoðaði þetta líka. Ungliðarnir í flokknum komust líka að því að stofna ætti atvinnuvegaráðuneyti, að þessi litlu ráðuneyti sem tengdust atvinnulífinu væru barn síns tíma, það ætti frekar að hafa eitt sterkt atvinnuvegaráðuneyti. Síðan hefur talsvert vatn runnið til sjávar og núverandi ríkisstjórn hefur gert nokkrar breytingar. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að halda til haga tímarammanum í þessu. Það er mín meginathugasemd við það að ég er ekki tilbúin til að styðja þær breytingar sem áætlað er að ráðast í núna hve seint þær eru fram komnar. Ég hef hins vegar stutt fyrri breytingar, bæði hjá fyrri ríkisstjórnum og núverandi ríkisstjórn, vegna þess að ég taldi þær til bóta. Ég vil nefna til dæmis þegar félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið voru sameinað í velferðarráðuneyti, það var mjög umdeilt. Ég tel að það hafi mjög til bóta og eftir þá reynslu sem margir hafa haft, vinnandi í þessum ráðuneytum, held ég að það séu gríðarleg samlegðaráhrif af því að sameina félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið eins og var gert í eitt velferðarráðuneyti. Það var talsverð spenna á milli ráðuneytanna og var um árabil þar sem málaflokkar sem viðkoma félagslegri þjónustu og heilbrigðisþjónustu liggja mjög þétt saman og þeir sem fóru með þessi ráðuneyti tókust oft á um verkefni sem lágu á hinu gráa svæði þarna á milli.

Menn hafa gert ýmsar breytingar upp á síðkastið og það er ágætt að rifja það upp að árið 2007 var samþykkt að sameina sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið og Hagstofan var gerð að sjálfstæðri stofnun. Árið 2009 voru efnahagsmálin færð undir viðskiptaráðuneytið og heiti ráðuneytisins breytt og í ársbyrjun 2011 voru dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinuð í eitt innanríkisráðuneyti og heilbrigðis- og félags- og tryggingaráðuneyti sameinuð í eitt velferðarráðuneyti. Þetta var samþykkt í september 2010 og tók gildi í ársbyrjun 2011. Þetta var sem sagt gert á fyrri hluta kjörtímabils og er komið í gagnið og ég tel þetta hafa verið ágætisbreytingar.

Núna eru við hins vegar að ræða um nýja skipan ráðuneyta ári fyrir kosningar. Það er mjög skammt til kosninga að mínu mati. Sumir kalla þetta korter í kosningar. Ég held að þetta sé mjög nálægt því að geta kallast korter í kosningar, það er eitt ár eftir af kjörtímabilinu og mjög miklar líkur á því að mínu mati að við taki ný ríkisstjórn hvernig sem hún verður saman sett, hvort hún verður tveggja flokka, þriggja flokka eða hvernig það skipast eru talsvert miklar líkur á því að sú nýja ríkisstjórn muni vilja skipa ráðuneytum með einhverjum sérstökum hætti miðað við hvernig tíðarandinn er og hvernig samfélagið breytist, samfélagið breytist ótrúlega hratt. Ég vil nefna það til dæmis, af því að ég er að draga það fram hve samfélagið breytist hratt, að það er að mínu mati, eins og Framsóknarflokkurinn sagði á sínum tíma, eðlilegt að ríkisstjórn hvers tíma skipi þessum málum en ekki löggjafinn. Þetta er hluti af framkvæmdarvaldinu, þetta er ekki hluti af löggjafarvaldinu sem fer fram í ráðuneytunum.

Sem dæmi um miklar breytingar og dæmi um hve stjórnsýslan hefur verið rosalega lömuð gagnvart þeim breytingum og þeim nýjungum vil ég nefna ferðaþjónustuna. Gjaldeyristekjur okkar Íslendinga koma inn að meginstofni frá þremur atvinnugreinum. Það er stóriðjan sem er núna komin í fyrsta sæti, er búin að toppa sjávarútveginn, mig minnir að í kringum 20–21% af gjaldeyristekjunum komi frá stóriðju, sjávarútvegurinn er í öðru sæti skammt á eftir og hver er þriðja atvinnugreinin? Það eru ferðamálin, ferðaþjónustan sem er með í kringum 16–17% af gjaldeyristekjunum. Hvernig er stjórnsýslan gagnvart ferðaþjónustunni? Hún er bara hlægileg. Ég held að það sé rétt hjá mér að ein manneskja haldi utan um ferðaþjónustumál í ráðuneyti á Íslandi. Er þetta ekki stórkostlegt? Þetta er ótrúlega veikt. Við erum svo með stofnanir, Ferðamálastofu og fleiri stofnanir sem koma að þessu, en það er gríðarlega veikt hvernig stjórnsýslan sinnir ferðaþjónustunni, því miður. Við reynum að sinna hinu vel, það er meiri hefð fyrir því í orkumálunum, stóriðjunni og sjávarútveginum. Við erum með stórar stofnanir þar sem sinna þeim málum og ráðuneyti sem hefur haldið þétt utan um þann málaflokk, landbúnaðinn o.s.frv. En hvernig við skipum málum í ferðaþjónustunni er algerlega fráleitt að mínu mati. Það er allt of veikt og sýnir einmitt hvað við höfum verið óviljug til að breyta ráðuneytunum, stokka þau upp og gera breytingar í takt við tímann, í takt við tíðarandann og breytingar sem eiga sér stað í samfélaginu. Ég hef því séð ákveðið sóknarfæri til dæmis í því að koma upp atvinnuvegaráðuneyti og tel ekki að einblína eigi á umsagnir hagsmunaaðila í því sambandi. Ég ber mikla virðingu fyrir því að hagsmunaaðilar í landbúnaði og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi vilji bara hafa þetta óbreytt meira og minna. Þeir hafa haft ákveðinn lobbíisma í gangi um árabil, þekkja starfsmenn í ráðuneytum, hafa mikið samstarf við þá, og vita hvað þeir hafa en vita ekki hvað þeir fá o.s.frv. Það er bara mannlegt að vilja halda í það. En það er ekki þar með sagt að ekki sé rétt að gera breytingar og ég hef séð ýmis tækifæri í breytingum á Stjórnarráðinu.

Ég ætlaði hins vegar ekki að gera efnislegt innihald breytinganna sem nú eru boðaðar mikið að umtali. Sumt af því er ágætt, held ég, en ég vil gera mjög alvarlegar athugasemdir við tímasetninguna. Þó að ég hafi sagt fyrr í ræðu minni að ég telji að þetta sé verkefni ríkisstjórnar hverju sinni, hvaða flokkar sem í henni eru, hafði ég alla veg ekki hugmyndaflug í það að menn mundu fara í breytingar af þessu tagi svo skömmu fyrir kosningar. Þetta hlyti eðli málsins samkvæmt að eiga að gerast á fyrri hluta kjörtímabils þannig að menn væru að nýta sér ný ráðuneyti, nýja skipan mála til að koma málum áfram. Síðan mundu þeir pólitísku flokkar sem röðuðu upp ráðuneytum og málaflokkum undir þeim bera pólitíska ábyrgð á því hvernig lukkaðist til á kjörtímabilinu og þannig fengi sú breyting sem gerð var dóm hjá kjósendum. Það kemur á óvart að þessar breytingar komi svona seint fram. Líklega er hluti skýringarinnar að ákveðið var að fresta því að fara í ákveðnar breytingar af því að hagsmunaaðilar settu niður fótinn og líka hluti þingmanna þannig að þetta fór allt á eindaga.

Ég held að réttast sé úr því sem komið er að gera ekki þessar breytingar núna, heldur bíða. Þetta er of seint fram komið og menn eiga að einbeita sér að öðrum málum úr þessu. Það er einungis ár eftir af kjörtímabilinu, mörg stórmál brenna á fólki sem að mínu mati væri æskilegt að taka góða umræðu um en ekki þetta. Ég tel að þetta mál brenni ekki á fólki. Ég held að þetta sé meira tæknilegt mál sem snýr að þinginu sjálfu og framkvæmdarvaldinu en fólk almennt hafi mjög takmarkaðan áhuga á þessu máli. Þetta snertir heimilin ótrúlega lítið og er allt of seint fram komið þó að færa megi rök fyrir því að sumar breytingarnar geti að mínu mati verið til bóta ef þær eru gerðar á fyrri hluta kjörtímabils en ekki svona seint.

Líklega er ríkisstjórnin, og það er kannski eðli ríkisstjórna hverju sinni, búin að bíta það í sig að vilja haka við í stjórnarsáttmála sínum. Reyndar er ekkert um þetta í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar sem var gefin út 1. febrúar 2009 en fjallað er um þetta í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar er kafli um stjórnkerfisumbætur, talað er um að víðtækt samráð verði haft við starfsfólk, almenning og hagsmunaaðila og leitast verði við að skapa almennan skilning og samstöðu um nauðsyn þessara breytinga. Ekki er hægt að segja að mikil samstaða sé um þessar breytingar, þó er hugsanlegt að meiri hluti sé fyrir þeim á þinginu af því að mér skilst að Hreyfingin styðji þessar breytingar en stjórnarandstaðan er upp til hópa andsnúin breytingunum og alla vega tveir stjórnarþingmenn, held ég, ef ekki fleiri.

Virðulegi forseti. Þetta mál er of seint fram komið og ætti ekki að afgreiðast úr þessu, við ættum að nota tímann í annað. Ég tel að of mikill tími fari í það miðað við það sem brennur á og að tímanum hefði verið miklu betur varið í aðra hluti.

Ég ætla að grípa aðeins niður í nefndarálit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er gott að hv. formaður nefndarinnar, Álfheiður Ingadóttir, er viðstödd alla umræðuna. Það má alveg segja að ýmislegt er gott í þessu nefndaráliti, eins og ég hef rakið hér, þessar breytingar, sumt af því er ágætt. Þar kemur fram að Ríkisendurskoðun hafi gert skýrslu um sameiningu fjögurra ráðuneyta í tvö 1. janúar 2011 og það sé álit Ríkisendurskoðunar að vel hafi verið staðið að flestum þáttum við undirbúning og framkvæmd sameiningarinnar. Hins vegar sé of skammur tími liðinn til að leggja megi mat á þær breytingar sem orðið hafa við sameiningu og tilfærslur verkefna milli ráðuneytanna á árunum 2009–2012. Síðan segir:

„Meiri hluti nefndarinnar telur því mikilvægt að forsætisráðuneytið láti vinna stöðumatsskýrslu eigi síðar en á árinu 2014 eins og fram kemur í athugasemdum með tillögunni.“

Þá erum við komin langt inn á næsta kjörtímabil. Það er svo sem ágætt að meta stöðuna en þetta vekur mann enn til umhugsunar um að það sé of seint í rassinn gripið, slíkt á að gera á fyrri hluta kjörtímabils, helst ekki á miðju kjörtímabili og alls ekki á seinni hlutanum, hvað þá ári fyrir kosningar. Það gengur ekki.

Síðan vil ég, virðulegi forseti, nýta síðustu mínútur mínar í að koma inn á styrk ráðuneyta, af því að stundum er talað um Alþingi sé eiginlega lamað, ráðuneyti ráði hér öllu og séu sterk og ég veit ekki hvað. Þetta er alrangt, ráðuneytin eru ekki sterk því miður, það væri betur að þau væru það. Um það má lesa til dæmis í svari hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, sem var hæstv. viðskiptaráðherra fyrir hrunið. Hann lýsir því þegar hann sendir sína hlið mála til rannsóknarnefndar Alþingis um efnahagshrunið, hann lýsir því þegar hann tók við ráðuneytinu og hvernig það var í stakk búið til að sinna þessum málum. Þar voru örfáir starfsmenn og sá sem var með lengsta starfsreynslu, ég man ekki hver hún var en það voru einhverjir mánuðir, og þetta ráðuneyti átti að fara með ótrúlega mikla málaflokka og bera gríðarlega ábyrgð. Ráðuneytin eru veik og væri nær að styrkja þau, m.a. með sameiningu. Ég tel að sameina eigi ráðuneyti yfir heildina, þau séu of mörg og of lítil almennt séð. Það á að styrkja þau, það á að fjölga starfsfólki í ráðuneytunum jafnvel á kostnað undirstofnana. Við erum með undirstofnanir sem eru miklu stærri en ráðuneytin sjálf. Það gengur að mínu mati ekki upp. Ráðuneytin eiga að vera leiðandi og halda meðal annars utan um stefnumótun bæði fyrir ráðherra og þing, ef þingið vill fallast á þá stefnumótun sem þar fer fram. Allt tal um sterk ráðuneyti er bara á sandi byggt.

Ég vil taka svolítið upp hanskann fyrir starfsfólk ráðuneytanna af því að þar er að mínu mati unnin mjög góð vinna og þar er ekki kastað til höndunum eins og stundum hefur verið gefið í skyn í ræðustól Alþingis. Það er alls ekki þannig. Starfsfólk ráðuneytanna stendur sig að mínu mati mjög vel, það er of fátt og það ber að styrkja ráðuneytin. Ég heiti á næstu ríkisstjórn, hvernig sem hún verður saman sett, að taka það alveg sérstaklega til skoðunar að styrkja ráðuneytin með mannafla, með fólki sem hefur faglega sýn á málin og ef ekki er hægt að hafa bæði sterkar stofnanir og sterk ráðuneyti eigi að veikja stofnanirnar á kostnað ráðuneytanna, sem sagt að styrkja ráðuneytin og veikja stofnanirnar á móti ef ekki finnst fjármagn til að gera hvort tveggja.

Lokaorð mín verða þessi: Ég tel að það sé hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að ráða skipan ráðuneyta. Fyrst svona stutt er í kosningar tel ég hins vegar að við eigum ekki að nota tímann í þetta mál, það eigi að hafna þessu máli. Næsta ríkisstjórn á að raða upp ráðuneytum eins og hún kýs — löggjöfin er reyndar þannig núna að það þarf að stimpla það hér — þetta var sáttatillaga sem meðal annars sú er hér stendur lagði fram ásamt hv. þingmönnum Eygló Harðardóttur, Árna Þór Sigurðssyni og Margréti Tryggvadóttur, og þess vegna erum við að ræða þetta hérna yfirleitt. En ég hafði ekki hugmyndaflug í að sjá það fyrir mér að við værum að fara í breytingar af þessu tagi svo skömmu fyrir kosningar eins og hér er lagt upp með.