140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir mjög góða og yfirgripsmikla ræðu. Ég er sammála grunnafstöðu hennar til ráðuneytanna, að það eigi að vera á verkefnaskrá ríkisstjórnar hvers tíma en ekki löggjafans að skipa verkum innan ríkisstjórnar og að styrkja þurfi ráðuneytin.

Það veldur mér verulega miklum vonbrigðum að hv. þingmaður skuli líta fram hjá ástæðunum að baki því að þetta mál kemur ekki fram fyrr. Það er í fyrsta lagi krafa um betri undirbúning og betri greiningarvinnu varðandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hins vegar nauðsynin á því, að fenginni reynslu af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, að styrkja og samræma almenna hagstjórn og fjármálastarfsemi í landinu. Mér finnst ekki nægilega (Forseti hringir.) góð samkvæmni í þeirri afstöðu þingmannsins að geta ekki stutt nauðsynlegar breytingar, hvenær svo sem þær koma fram.