140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni að það er réttast að mínu mati að ríkisstjórn hvers tíma skipi málum í ráðuneyti, hvaða málaflokkar heyri undir hvert ráðuneyti, hve mörg þau eru o.s.frv. Það á hins vegar ekki að gera það svona seint á kjörtímabilinu. Það getur ekki verið eðlilegt, það getur ekki verið praktískt, svo maður noti það orð.

Ég sé hins vegar í nefndarálitinu og man auðvitað eftir þeirri umræðu sem hér átti sér stað, að núverandi ríkisstjórn bakkaði út úr málunum. Hún ætlaði að gera þessar breytingar en bakkaði og ákvað að bíða og fara í meiri vinnu, það er alveg rétt. Þess vegna lenda málin í þeim farvegi að koma svona seint fram. En það var líka meðal annars vegna mikillar gagnrýni sem kom fram. Ég tel að það eigi ekki að klára þetta mál (Forseti hringir.) fyrst við erum lent í þessari stöðu og næsta ríkisstjórn mun líklega gera breytingar á þessu.