140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar að bera upp við hv. þingmann. Í fyrsta lagi, þegar við vorum að ræða stjórnarskrárbreytingarnar 2010, fannst mér að minnsta kosti vera töluverður samhljómur um að fara í þá breytingu að ráða inn í Stjórnarráðið í heild sinni en ekki inn í einstaka ráðuneyti, til þess að fá faglegra og betra starf, sú breyting væri ákveðið skref í þá átt. Ég kalla eftir afstöðu hv. þingmanns til þess.

Í öðru lagi var líka rætt um, og mér fannst ákveðinn samhljómur um það, að þegar nýir ráðherrar kæmu í ráðuneytin hefðu þeir ákveðinn fjölda aðstoðarmanna með sér, hvort sem þeir væru tveir, þrír eða fjórir. Síðan þegar þeir færu tækju þeir aðstoðarmennina með sér. Mig langar að kalla eftir afstöðu hv. þingmanns til þessara tveggja atriða.