140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:11]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir efnislega og ágæta ræðu. Það er athyglisvert að hún lýsti afstöðu sinni til þingsályktunartillögunnar um breytingar á ráðuneytum út frá tímaramma fyrst og fremst en gerði ekki efnislegar athugasemdir, að ég heyrði, við einstök atriði í tillögunni, ólíkt því sem ýmsir aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa fyrst og fremst verið uppteknir af.

Hún lýsti líka þeirri afstöðu að eðlilegt væri að stjórnvöld á hverjum tíma hefðu fullt frelsi til að stýra þessum málum. Maður spyr þá í framhaldi af því: Af hverju er verið að binda það frelsi við tímamörk? Breytir engu ef gera þarf brýnar breytingar í ljósi breyttra aðstæðna sem koma upp í samfélaginu hverju sinni, hvort sem við horfum til auðlindamála og umræðunnar sem snýr að þeim, atvinnumála eða efnahagsmála?