140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:13]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég er kannski að kalla eftir varðandi afstöðu hv. þingmanns er hvort hún líti svo á að það að horfa til tímarammans í þessum efnum sé fortakslaust, og einnig hvort ekki sé eðlilegt að öll stjórnsýsla sé í sískoðun. Ég nefni þetta vegna þess að í þingsalnum eru meðal annarra hv. þingmaður og fleiri sem hafa unnið í langan tíma að sveitarstjórnarmálum. Sveitarfélögin hafa verið mjög meðvituð um að nauðsynlegt sé að hafa breytingaferli í gangi í stjórnsýslunni þar og binda sig ekki við tímaramma. Margir hafa talað einmitt á þeim nótum að öll stjórnsýsla eigi að vera í sískoðun. Hver er þá munurinn varðandi stjórnsýsluna sem við þekkjum í sveitarstjórnarstiginu og þá sem snýr að framkvæmdarvaldi?