140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég tel að það sé hluti af mótstöðu minni við að gera breytingar svona seint. Þegar svona breytingar eru gerðar í ráðuneytunum, málaflokkar færðir til, ráðuneyti sameinuð o.s.frv., fer allt á flot. Þetta eru embættismenn, yfirleitt kraftmiklir, duglegir og búnir að koma sér fyrir í störfum sínum og svo fer allt á fleygiferð af því að það er verið að breyta. Það er bara í mannlegu eðli að slíkar breytingar eru mjög streituvekjandi og skapa mikið álag þannig að það er ekki æskilegt að gera þær oftar en þegar virkilega er þörf fyrir og helst ekki svona skömmu fyrir kosningar þegar mikið álag er líka á stjórnsýslunni almennt.

Það er hárrétt ályktun hjá hv. þingmanni að hluti af minni andstöðu við að gera þessar breytingar er hvaða áhrif þær hafa á starfið í ráðuneytunum almennt.