140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður nefndi, af því að hún sæti í hv. fjárlaganefnd, að ekki lægju fyrir nein áform um sparnað.

Ég kom inn á það í ræðu minni að ég hefði talið æskilegt að fá umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þó að vikið sé að þeim tölum í meirihlutaálitinu. Ég held að við þurfum líka að hugsa þetta á þeim nótum að Ríkisendurskoðun er búin að gefa út skýrslu sem segir að í gegnum tíðina hafi nefnilega oft verið gert miklu meira úr sparnaði en var raunhæft að gengi eftir. Í 85% tilfella, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar, var markmiðunum um sparnað ekki náð. Ég held því að oft og tíðum hafi mál verið keyrð í gegnum þingið með áformum um einhvern sparnað sem var ekki raunhæfur. Við verðum líka að taka það með í reikninginn þegar við ræðum þessa hluti.