140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér fór fram í andsvörum áðan milli hv. þm. Lúðvíks Geirssonar og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur umræða um að í sveitarstjórnargeiranum væri oft verið að breyta sviðakerfum, nefndaskipan og öðru í þeim dúr og sveitarfélögin vildu gjarnan hafa þann möguleika. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er reynslubolti á þeim vettvangi, eins og sá sem hér stendur og aðrir fyrirspyrjendur áðan. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort honum hefði einhvern tíma dottið í hug á sínum ferli að umturna á síðasta ári kjörtímabils stjórnskipulagi sveitarfélagsins sem hann væri í forsvari fyrir, þó svo að ég viti að hann treystir sér til þess að fá meiri hluta kjörtímabil eftir kjörtímabil. Mundi hann leggja út í að umturna stjórnsýslu sveitarfélagsins ári fyrir kosningar, sérstaklega í ljósi þess (Forseti hringir.) að við lifum á krepputímum og þurfum að velta hverri einustu krónu fyrir okkur, og án þess að fyrir lægi að það skilaði einhverjum sparnaði?