140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður á, eins og hér hefur komið fram, sæti í fjárlaganefnd og hann leggur áherslu á að hér geti verið um að ræða kostnað við sameiningu og breytingar á ráðuneytum upp á hátt í 500 millj. kr. á þessu kjörtímabili, ef svo fer fram sem horfir. Þarna munar um 100 milljónum á áætlunum og ég vek athygli á því að meiri hlutinn leggur áherslu á að það þurfi að fara fram ítarleg kostnaðargreining á þeim húsnæðisvalkostum sem uppi eru en þarna munar 100 millj. kr. á þeim.

Þegar við tölum um þennan kostnað erum við að ræða um einskiptiskostnað, við erum að ræða um einskiptisútgjöld, einskiptisaðgerð. 243 milljónir kostaði þetta með innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið en þessi ráðuneyti tvö skiluðu 148 millj. kr. lægri rekstrarkostnaði á árinu 2011 en á árinu 2010 sameiginlega (Forseti hringir.) þannig að þessi einskiptiskostnaður vinnst upp á innan við tveimur árum. Það er auðvitað sú hagræðing sem verið er að sækjast eftir.