140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárréttur skilningur hjá hv. þingmanni að það eigi gera það með þeim hætti að við séum ekki alltaf að hringla með ráðuneytin. Ég nefndi það í ræðu minni og ég held að ekki sé ágreiningur um það að þegar ný ríkisstjórn tekur við gerir hún þær breytingar sem hún vill gera og við verðum auðvitað að passa okkur á því. Þess vegna þurfum við að þróa umræðuna gagnvart því að vera með aðstoðarráðherra en það má bara ekki ræða það og sumir mega ekki heyra minnst á það. Þeir hafa ugglaust efnisleg rök fyrir því en ég hef svo sem ekki orðið var við þau í umræðunni. Þau eiga kannski eftir að koma fram, ég tók ekki eftir að þau kæmu fram í fyrri umr. en það getur vel verið að þau hafi gert það. Svo er líka, og það finnst mér svo mikilvægt, framkoman gagnvart starfsfólki í Stjórnarráðinu. Það er mín bjargfasta trú að við eigum að ráða í Stjórnarráðið til að hafa þar heildarmynd þannig að við séum ekki alltaf að færa til ráðuneyti, færa til innan ráðuneytanna, þá verður miklu meiri stöðugleiki og miklu betra umhverfi fyrir það fólk sem starfar í Stjórnarráðinu. Það er mín trú.