140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:01]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Það var til að mynda sérkennilegt að hlusta á tvo ágæta þingmenn, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Lúðvík Geirsson, vera svona hálft í hvoru að smjaðra hvor fyrir öðrum um ágætishugmyndir um framtíð Stjórnarráðs og stjórnsýslu. En þau atriði sem þeir félagar ræddu eru bara ekkert til umræðu hér. Þeir komu eins og hvítur stormsveipur utan úr geimnum. Það er ekkert inni í myndinni hjá íslensku ríkisstjórninni að vinna á þessum nótum. Það er bara þannig. Og maður verður að kunna að fiska það úr þó að þetta hafi verið væntumþykja hjá báðum þessum ágætu þingmönnum.

Það er einkennilegt, virðulegi forseti, að menn láti hafa sig út í það að ræða mál eins og nú er til umræðu á rökum og skynsemisnótum þegar málið er fyrst og fremst ein hringavitleysa, hefur hvorki upphaf né endi. Það er í rauninni allt troðfullt af Brussel-línum en það er nokkuð sem mun ekki gagnast okkur í íslenskri stjórnsýslu, kannski evrópskri.

Það er nefnilega erfitt, virðulegi forseti, að ætlast sé til þess að maður tali um þetta eins og þetta sé í lagi, eins og þetta sé eðlilegt. Það er eðlilegt að sólin komi upp á hverjum degi en þetta mál er óeðlilegt vegna þess að það er vanbúið, það er ófullburða fóstur sem enginn sér fyrir hvernig muni reiða af og þá er skákað of grimmt í skjólinu varðandi íslenskt sjálfstæði og stjórnarfar.

Breytingar á stjórnarskrá eiga í rauninni að vera á sömu nótum og þegar menn byggja hús, það á a.m.k. að vera bjart, hlýtt og rúmgott, og breyting á Stjórnarráði, virðulegi forseti, á að vera metnaðarfull með rými, framsýni og þróunarmöguleikum. Hvar er það í þessu máli? Það er hvergi. Þetta er rekið á þeim nótum eins og maður færi á Umferðarmiðstöðina síðdegis af því að einhverjum hefði dottið það í hug í grúppunni, pikkaði upp einhvern væntanlegan farþega þar, dröslaði honum upp á Landspítala og setti hann í hjartaaðgerð og framkvæmdi aðgerðina sjálfur. Þetta er metnaðurinn.

Ég er viss um að þótt vinur minn hv. þm. Róbert Marshall treysti mér þá mundi hann ekki treysta mér til að gera á sér hjartaaðgerð. Það er ekki þannig og það er mjög eðlilegt. Það gæti samt lukkast en við eigum ekki að miða við það. Þess vegna, virðulegi forseti, er í rauninni dónaskapur við íslenskt samfélag að ræða þetta mál eins og það sé eðlilegt og eigi fram að ganga. Þetta er grundvallaratriði í máli sem verður að vera sátt um, sem verður að hafa fengið að þroskast og vaxa og taka eðlilegum ábendingum og rökum en ekki keyra fram með valdbeitingu.

Þetta minnir svolítið á þá tíma fyrir rétt um 40 árum þegar starfsmenn Seðlabanka Íslands voru þrír. Seðlabanki Íslands var í einu herbergi í Landsbankahúsinu í Austurstræti. Einn af þremur starfsmönnum hafði það aukahlutverk að þvo gardínur og dúka í stofnuninni. Kannski gerði þetta sitt gagn en þetta eru úrelt vinnubrögð í dag í framsetningu og aðbúnaði fjármála og stjórnsýslu.

Það er ekki verið að skoða neina hluti í þessu dæmi, það er ekki leitað umsagna, heldur er verið að troða málinu fram með valdbeitingu. Það er ekki hægt að breyta Stjórnarráði Íslandi eins og það snúist um næturuppvask á næturklúbbi, það gengur ekki. Þess vegna er rétt að tala um þetta mál eins og það er vaxið, vanbúið og ótrúlegt að menn skuli fást til að fylgja því eftir. Það er ekki í lagi og það er útgangspunkturinn sem við eigum að horfast í augu við.

Bakkabræður voru frægir fyrir margt. Þeir ákváðu til að mynda að bera birtuna í bæinn. Það gekk ágætlega að bera birtuna í fötum en það birti aldrei inni í gluggalausum bænum. Þeir gáfust ekki upp þeir mætu menn, héldu áfram og héldu áfram og skildu ekkert í því af hverju ekki birti í bænum. Þannig gekk þetta ár eftir ár og aldrei birti í bænum. Þeir reyndu á milli ára að troða í allar hugsanlegar glufur sem gætu stöðvað það að birtan rynni aftur út úr bænum. Bakkabræður voru snillingar. Við höfum líka snillinga í hæstv. ríkisstjórn: „Brødrene fra Bakke“, forsætisráðherra vorn Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrím J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Að sjálfsögðu er ég ekki að líkja þeim við Bakkabræður því að Bakkabræður hættu að reyna að bera birtuna í bæinn en eftir þrjú ár heldur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur áfram að reyna að ausa í bæinn birtu með fötum og ekkert gengur.

Virðulegi forseti. Þetta er eins og að reyna að ýta skipi úr vör og hvorki stefni né skutur er klár, það er ósmíðað. Það er gott að eiga menn eins og hv. þm. Helga Hjörvar sem hefur miklar hugsjónir og sér lausn á flestum hlutum og ef efnið er ekki klárt í bátnum er hugurinn góður og sterkur og það á að duga. En reynslan er sú til sjós og lands að það dugar ekki. Það þarf að hafa klárt stefni, kláran skut, vel slegið í, vel byggt og traust og hægt að róa á fleytunni en ekki gutla einhverjum fjörulalli eins og hæstv. ríkisstjórn er til að mynda að gera með ólíkindum í þessu máli. (Gripið fram í.)

Bakkabræður sáu að sér. Hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu hefur ekki séð að sér.

Á Borneó er svokallaður stauraættbálkur. Hann býr á staurum úti í vötnum. Þetta er að sumu leyti skynsamlegt því að hægt er að gera allt í senn, veiða, henda úrgangi og öðru, frá einni fjöl á staurnum. En þetta er samfélag sem ætti ekki möguleika á því að fá aðild að Evrópubandalaginu. Það væri ekki nógu fínt uppsett fyrir Evrópubandalagið og það sama á við um það frumvarp sem hér er til umræðu. Við vitum að það var sent til umsagnar í Brussel til að láta embættismennina og snillingana í Brussel fara yfir það og kanna hvort það hentaði vel fyrir Brussel framtíðarinnar. Auðvitað vilja menn ekki viðurkenna þetta en engu að síður er það almannamál hjá mönnum sem gerst þekkja í þeirri ágætu borg, Brussel. Það er alveg sama hvað Brussel-línurnar hrópa og hrópa, þær eru einar á báti á hriplegri kænu sem dugar ekki einu sinni í litla á, hvað þá höf.

Virðulegi forseti. Á Krakatá í Indónesíu kynntist ég sérstæðum aðstæðum þar sem menn við rannsóknir urðu að láta sér nægja einn til tvo bolla af vatni á dag, vatni sem var eimað úr eitraðri blöndu af vökva en dugði með eimingunni þannig að handaflið var notað til að pumpa í tvær skipskönnur á dag. Metnaðurinn hjá hæstv. ríkisstjórn í framsetningu þessa máls er ekki meiri en svo að ástæða og aðstæður séu til þess að menn skrimti og hjari. Auðvitað er þetta hluti af því að okkur, þessu gáfaða fólki, er ætlað að verða lítið þorp í Tyrklandi. Ég vona að Brussel-línurnar flytji þangað fyrstar allra.

Í Eþíópíu var sá háttur á hjá kristniboðum á þeim tíma sem ég var þar með íslenskum kristniboðum að ekki þýddi fyrir þá að segja bændum í Gidole og fleiri þorpum Eþíópíu hvaða tegundir væru bestar, hverjar gæfu mestar afurðir og afrakstur og árangur. Nei, það þýddi ekki. Það varð að gróðursetja hlið við hlið margar tegundir í nokkur ár. Þá fóru bændur sjálfir að meta hvað væri best og auðvitað kom út það sama og þeir hefðu fengið ef þeir hefðu notið tilsagnar og reynslu.

Frumvarp hæstv. ríkisstjórnar um breytingu á Stjórnarráðinu er ekki byggt á reynslu. Það er byggt á skyndiákvörðun, slettirekugangi og veiðimennsku á mjög gruggugu vatni vegna þess að menn vita ekkert hvert er verið að fara með því að leggja af stað.

Grænlenskir veiðimenn hafa sumir þann hátt á að þeir geta verið vikum saman að leggja í hann út á ísinn, leggja í hann út á veiðar. Þá nota þeir orð sem er reyndar mest notað í grænlenskri tungu og er orðið „imaka“. Það þýðir kannski. Maður kemur jafnvel til veiðimanns og ætlar að spjalla við hann, sjá hvernig liggur í honum og hvert er stefnt en þá má hann ekkert vera að því að tala við mann af því að hann er að fara. Svo kemur hann eftir tíu daga á sama stað, þá er hann enn að fara — imaka. Ríkisstjórn Íslands í dag er eitt allsherjar-imaka. Það kemur ekkert út úr neinu, enginn árangur, stöðnun, veikleiki og uppgjöf. Það er ekki veganesti fyrir okkar fólk.

Úti í Elliðaey í Vestmannaeyjum hafa lengi verið ötulir og snjallir bjargveiðimenn. Þeir eru frá gamla svæðinu í Eyjum, Oddsstaðasvæðinu, Kirkjubæjarsvæðinu, sérstakir persónuleikar og elta ekki ólar við smámuni en stundum geta smámunirnir gefið mynd af stærri hlutum. Einhverju sinni voru Elliðaeyingar að klára vorverkin fyrir sumarvertíðina. Þeir voru úti allir saman, 12 talsins, og þá var venja að haldið var teiti í veiðikofanum. Þetta kvöld gleymdu þeir að slökkva á talstöðinni svo að Eyjamenn skemmtu sér við að hlusta á ræðuhöld þeirra og snilld sem var svona á ýmsum stigum glasabúskapar eyjarinnar.

Þegar líður á kvöldið stendur einn mætur Elliðaeyingur upp, Tóti í Kirkjubæ, og segir: Það er eitt, bræður, sem okkur hefur brugðist að leysa í dag og það er að bika kofann til að gera hann bjartan og fagran. Annað hefur brugðist sem ég tók eftir áðan, það er gat á mottunni úti á veröndinni. Pétur í Kirkjubæ sagði þá: Tóti minn, farðu bara út og snúðu mottunni við. Tóti fer út, kemur inn eftir langa stund með mikilli mæði, biður um orðið og segir: Bræður, það er alveg sama hvað ég sný mottunni oft við, það er alltaf gat á henni þeim megin.

Hv. þingmenn. Virðulegi forseti. Þetta er íslenska ríkisstjórnin í dag. Það er alltaf gat á mottunni hjá henni af því að hún hugsar ekki til enda. Hún minnir að sumu leyti á einhyrningana sem eru sérstæð dýr í náttúru jarðar, sjávardýr með náhvalnum á norðurhveli jarðar, með einhyrningum í Afríku og víðar og svo einhyrningum meðal manna. Það þarf ekki einu sinni að skilgreina hverjir eru þeirrar tegundar í hæstv. ríkisstjórn Íslands. Það vita allir þegar myndlíkingin er sett upp.

Virðulegi forseti. Fram hefur komið í máli manna að breytingar á Stjórnarráði Íslands eigi að vera ígrundaðar til botns, vandaðar og markvissar. Þær hljóta í þeim efnum að þurfa að byggjast á verulegri sátt því að annars kemur einfaldlega sú staða upp að næsta ríkisstjórn, sem að öllum líkindum tekur við innan skamms, mun aftur stokka upp spilin af því að það var farið með óbrúklegt hráefni til vinnslu, það var farið með fimm nátta fisk sem átti að setja í dýrustu pakkningar, það var farið með gauðrifin net á sjóinn og það gleymdist að sinna ræktun túnanna. Það gleymdist að taka á hlutum eins og mönnum ber, eins og Íslendingar ætlast til, eins og við verðum að gera ef við ætlum að tryggja áfram sjálfstæði í landi okkar.

Þetta á ekki að vera nein óvissuferð. Þetta getur aldrei orðið óvissuferð að því leyti að grunnurinn sé ekki smíðaður tryggilega. Lífið sjálft er óvissuferð og margt getur komið upp á og það er ekki stóra málið í hverju menn lenda heldur hvernig menn komast út úr því. Það er því miður þannig með hæstv. ríkisstjórn að hún hefur lent í algeru ráðaleysi og kemst ekki út úr því.