140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:45]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir þetta. Hann vísar til starfa þess sem hér stendur fyrir hagsmunafélag í landbúnaði. Það er einfaldlega þannig að samskipti hafa verið mjög misjöfn eftir því hvaða ráðuneyti er átt við í hverju tilfelli og svo hefur skipt máli hver er ráðherra á hverjum tíma.

Ég get ekki leynt því að samskipti okkar við hv. fyrrverandi ráðherra landbúnaðarmála, Jón Bjarnason, voru með miklum ágætum en því miður var það nú einfaldlega þannig að hæstv. ráðherra kom engum málum er varða landbúnaðinn í gegn í ríkisstjórninni sem hann sat í. Þó að hæstv. ráðherra hafi haft góðan vilja til að gera sem best í lagagerð og lagfæringum hvað varðar löggjöf í landbúnaði kom hann einfaldlega engu slíku í gegn.

Heilt yfir með önnur ráðuneyti er kannski ekki hægt að segja að samskiptin hafi verið með sama hætti. Ég get ekki endilega sagt að þau hafi verið slæm en það hefur verið svona, getum við orðað það, ákveðið fálæti gagnvart landbúnaðinum í mjög mörgum ráðuneytum þessarar ríkisstjórnar.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um árafjölda, ég tel mjög skynsamlegt að menn séu ekki of lengi í svona embættum og tek undir að það gætti glætt gleði og starfsvilja manna að þeir hefðu í huga að vera ekki of lengi í hverju embætti.