140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á það að mjög fá mál sem snúa að landbúnaði hefðu komist í gegn í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ég verð að segja við hv. þingmann að ég er ekki viss um að tilefni sé til að gera athugasemdir við það, að fenginni reynslu hvað aðrar atvinnugreinar varðar er kannski best að sem fæst mál fari í gegn.

Hv. þingmaður þekkir mjög vel til og hefur starfað lengi við landbúnað, hefur verið í forustuhlutverki á vegum Bændasamtakanna. Hann kom inn á það í ræðu sinni að þegar búið væri að steypa öllum atvinnuvegunum saman inn í nýtt atvinnuvegaráðuneyti og til viðbótar hluta af fjármálamarkaðnum væri eins og landbúnaðurinn hefði verið settur til hliðar. Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að þá verði yfirsýnin miklu minni en ella? Það felast í því hættur að ekki sé hægt að veita undirstöðuatvinnugreinum landsins athygli, ef þetta verður samþykkt.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem hann kom inn á í ræðu sinni gagnvart einstaka stofnunum. Það var mjög athyglisverð grein eftir Borgfirðinginn Óðin Sigþórsson sem snýr að Veiðimálastofnun. Það liggur reyndar ekki fyrir hvort hv. þingmaður hafi athugasemdir við það að ekki skuli liggja fyrir í umræðunni hvar viðkomandi stofnanir eiga að vistast, að það skuli hugsanlega verða klárað eftir á þegar búið er að samþykkja breytinguna — hver er skoðun hv. þingmanns á því?