140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:52]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Ég þakka sérstaklega þá föðurlegu ábendingu að líklega færi best á því að sem fæst mál á sviði landbúnaðar hefðu farið í gegn. Það kann vel að vera rétt.

Frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum og umræðan um stjórnkerfisbreytingar hófst hafa hagsmunafélög í landbúnaði ítrekað mótmælt sameiningu iðnaðarráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, einmitt vegna þess sem hv. þingmaður kom að í ræðu sinni, að við óttumst að menn tapi þessari yfirsýn. Það er alveg ljóst að eftir sameiningu sjávarútvegsráðuneytis annars vegar og landbúnaðarráðuneytis hins vegar í eitt ráðuneyti hafa mjög margir talið að yfirsýn skorti. Í ágætri skýrslu kemur fram að það er líka mál manna í sjávarútvegi, þeir telja áherslur mjög breyttar, sem segir okkur að á báða bóga virðast menn telja að fókusinn hafi tapast og yfirsýnin þar með. Ég tek því undir það að menn óttast að kraftarnir dreifist og mikill munur verði hvað varðar landbúnaðinn

Varðandi Veiðimálastofnun held ég einfaldlega að Landssamband veiðifélaga vilji vera áfram undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og leggi mikla áherslu á að Veiðimálastofnun verði ekki færð undir önnur ráðuneyti, leggi höfuðáherslu á það. Það virðist vera inntakið í því að þeir treysti einfaldlega því ráðuneyti best til þess að fara með það.