140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:02]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður semur ræðu til að flytja á hv. Alþingi getur maður einfaldlega miðað við sína upplifun, hvað manni finnst um hlutina, og það er ekkert síðri málflutningur en hver annar, það sem maður upplifir sjálfur.

Ég fagna því hins vegar, sem fram kemur í máli hv. þingmanns, að hann telur sjávarútveg og landbúnað mjög mikilvægar greinar, ég fagna þeirri umræðu (RM: Ég er fyrrverandi sjómaður.) — já, fyrrverandi sjómaður, þetta eru mikilvægar greinar.

Við megum ekki gleyma því að sjávarútvegur og landbúnaður eru frumframleiðslugreinar. Í báðum tilfellum er útflutningur, mikill útflutningur í sjávarútvegi og þó nokkur útflutningur í landbúnaði, sem skiptir fleiri milljörðum króna, þetta eru greinar sem vega þungt. Þó að vægi þeirra hafi ef til vill minnkað í gegnum tíðina í hlutfalli við aðrar greinar megum við samt sem áður ekki gleyma því að þetta eru (Forseti hringir.) frumframleiðslugreinar sem við verðum að horfa til.