140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:03]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá með leyfi forseta að vitna hér stuttlega í þingskjal þar sem segir:

„Allar þessar breytingar miða að því að laga stjórnsýsluna og verkefni ráðuneyta betur að þörfum nútímans. Ráðuneyti verði þannig öflugar einingar þar sem skyldum málaflokkum er skipað saman undir eina stjórn. Hyggst ríkisstjórnin halda áfram á sömu braut og undirbúa enn frekari hagræðingu í skipulagi og rekstri ráðuneyta og ríkisstofnana.“

Virðulegi forseti. Ég var ekki að vitna í þingskjal vegna tillögu til þingsályktunar og breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem er til umfjöllunar hér. Ég var hins vegar að vitna í þingskjal um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, sem lagt var fyrir Alþingi á 134. löggjafarþingi árið 2007. Þetta er lykilsetning í því frumvarpi þar sem lögð er á það rík áhersla hversu miklu það skipti að færa verkefni ráðuneyta og laga stjórnsýslu að þörfum nútímans, skapa þannig öflugar einingar, skipa málaflokkum undir eina stjórn og að það sé vilji stjórnvalda að undirbúa og vinna enn frekar að hagræðingu og skipulagi í þessa veru.

Það er nauðsynlegt að horfa til þeirrar tillögu sem hér er til umfjöllunar á forsendum þess sem áður hefur verið unnið, sagt og gert í sölum Alþingis. Það eru ekki nema fimm ár síðan þessi þingskjöl voru til umfjöllunar í þinginu. Það er athyglisvert að í umræðunni í dag og í kvöld hefur verið lögð á það rík áhersla af hálfu stjórnarandstöðu að nálgast þá tillögu sem hér er til umfjöllunar á þeim forsendum að hér sé ómálefnalega að verki staðið og verið að fara með hraði með óundirbúið mál í gegnum þingið.

Ef slík umræða heldur einhverju vatni og slík rök er ástæða til að spyrja hvernig staðið var að þeirri afgreiðslu og þeim málatilbúnaði þegar áðurnefnt frumvarp til laga var til umræðu á sérstöku aukaþingi, sumarþingi, í júní 2007. Jú, í þeim tillögum var ekki verið að fara fram með einhverjar einfaldar breytingar á stjórnskipan landsins. Lagafrumvarpið fól í sér umtalsverðar breytingar á henni. Þar var verið að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þar var verið að leggja Hagstofuna niður sem sjálfstætt ráðuneyti. Þar var verið að færa tryggingaráðuneytið undir félagsmálaráðuneytið. Þar var verið að slíta í sundur iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og þar var með sérstöku ákvæði verið að heimila sameiningu ráðuneyta með úrskurði forseta. Þetta var umfangsmikið, viðamikið frumvarp til umræðu. Það fór til umfjöllunar í allsherjarnefnd. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir í skjölum þingsins liðu 13 dagar, innan við tvær vikur, frá því frumvarpið var lagt fram þar til var búið að fara með það í gegnum þessa gríðarlega vönduðu og yfirgripsmiklu vinnu í allsherjarnefnd og það kom hingað og fékk væntanlega yfirgripsmikla og ítarlega umræðu í þingsal áður en það varð að lögum. Reyndar stóð umræðan í þingsal ekki nema í um tvær til þrjár klukkustundir eftir því sem ég kemst næst miðað við heimildir. Umfjöllunin í allsherjarnefnd hlýtur að hafa verið mjög víðtæk og markviss með vísan til þess hvernig menn hafa lagt hér áherslu á, ekki síst hv. þm. Birgir Ármannsson, hvernig standa eigi að yfirferð og umfjöllun um slík stór mál.

Nefndarálit allsherjarnefndar sem er meðal annars undirritað af formanni og framsögumanni málsins, hv. þm. Birgi Ármannssyni — sá pappír nær upp á rétt eitt prentað A4 blað og stór hluti af því fer til að lista upp hverjir hafi mætt til fundar við nefndina. Þeir voru litlu fleiri en þeir sem komu til fundar við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd við umfjöllun og yfirferð á þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu.

Ég get ekki heldur séð í nefndaráliti að nokkrar umsagnir hafi borist við umfjöllun málsins, a.m.k. er þess hvergi getið í nefndaráliti. Það kemur heldur ekki fram að lögð hafi verið fram nein gögn, skýrslur, úttektir, eða einhver heimavinna til undirbúnings og grundvallar þessum víðtæku breytingum á stjórnskipan ríkisins. En í umræðunni í dag hefur verið gert lítið úr því að hér hafa verið unnar mjög athyglisverðar og víðtækar skýrslur sem taka annars vegar á þeim lykilþáttum sem snúa að breytingum á stjórnskipan mála og hins vegar var síðan unnin sérstök skýrsla og samantekt núna í febrúar um útfærslur og tillögur varðandi skipan efnahags- og viðskiptamála innan Stjórnarráðsins.

Í þeim skýrslum, eins og vikið var að í máli framsögumanns í umræðunni fyrr í dag, er sérstaklega sundurgreind afstaða allra lykilhagsmunasamtaka sem koma að þessu máli, þ.e. Samtaka atvinnulífsins, ein 15 slík samtök sem hafa verið í samráði og leitað álits og samvinnu við varðandi mat þeirra á rökum með og á móti þeim tillögum sem voru til umfjöllunar og lagt upp með í þeirri grunnvinnu sem er forsenda þingsályktunarinnar sem nú er til umfjöllunar. Gríðarlega metnaðarfull og góð vinna þar sem kallað var eftir áliti og umsögnum þeirra aðila sem málið snýr fyrst og fremst að.

Í nefndaráliti og yfirferð allsherjarnefndar árið 2007 fyrir réttum fimm árum síðan er hvergi að sjá að nein slík vinna hafi verið framkvæmd. Ekki var leitað neinna umsagna. Engar skýrslur voru unnar. Það var engin yfirferð eða gerð nein úttekt á því sem verið var að fara yfir. Nei, málið var bara keyrt í gegn á yfirhraða, ef má nota það orð, væntanlega vegna þess að það var svo breið og góð samstaða um það. Sjálfstæðisflokkurinn, sem var í forustu fyrir að leiða málið í gegnum þingið, hafði ekki miklar áhyggjur af því að verið væri að gera svo róttækar og hættulegar breytingar á stjórnsýslunni að menn þyrftu að hafa varann á. Síður en svo. Hann boðaði í frumvarpinu að mætti vænta enn frekari aðgerða í þeim anda sem þarna var lagt til.

Það vekur athygli að eina umfjöllunin, eina efnislega umfjöllunin um þau lykilatriði sem snúa að breyttri stjórnskipan í nefndarálitinu er ein setning, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Meiri hluti nefndarinnar“ — þ.e. allsherjarnefndar — „styður þær skipulagsbreytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins um breytingar á ráðuneytum og telur að þær séu til bóta.“

Þetta var eina efnislega umfjöllunin og niðurstaða í nefndaráliti fyrir fimm árum um þessar stóru og miklu breytingar. Ein setning. Engar umsagnir. Engar skýrslur. Engar úttektir. Engin heimavinna. Engin forvinna. Nei, þetta var bara lagt hér fyrir, afgreitt á einni blaðsíðu í nefndaráliti, með einni setningu sem laut að öllum helstu efnisatriðum málsins og málið keyrt í gegn í umræðum á þremur klukkustundum. (Gripið fram í: Þremur umræðum.) Í heildarumræðu um málið, þrjár klukkustundir.

Við erum búin að vera hérna meira og minna síðan klukkan fjögur í dag. Í fyrri umr. um þessa þingsályktunartillögu var talað fram á nótt í ellefu eða tólf klukkustundir. Tíminn sem umræðan hefur tekið um þetta mál er farinn að nálgast heilan sólarhring. Það er auðvitað ekki hægt að segja annað en að hún hljóti að vera efnisleg, marktæk, vönduð og yfirgripsmikil, enda er allur efnistilbúnaður málsins á þá lund.

Hér hefur verið lögð fram ítarleg úttekt og vinna í aðdraganda þessa máls. Auðvitað hefur það tekið tíma. Auðvitað er það ein skýring þess að málið er ekki komið til umfjöllunar og afgreiðslu þingsins fyrr en nú. Þingmenn hafa þá að minnsta kosti gögn og upplýsingar í höndum til að vinna með og taka afstöðu til. Meira en það, hér liggja fyrir álit og túlkun og umsögn allra helstu aðila sem þetta mál snertir.

Ég held að mikilvægt sé að hafa það í huga þegar menn horfa til umfjöllunarinnar um þetta mál í dag að ekki virðist vera sama hver á heldur. Fyrir fimm árum þótti bara sjálfsagt og eðlilegt að keyra þessi mál með hraði í gegn. Það þurfti enga sérstaka undirbúningsvinnu, yfirferð eða umfjöllun, heldur var hægt að fara með þetta fram með þeim hraða sem ég hef lýst. Ég sé ekkert eftir þeim tíma sem fer í þessa umfjöllun í þingsalnum í dag, við höfum nógan tíma. Við getum talað alveg fram á morgundaginn, enda er klukkan nú að ganga eitt. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt að menn gefi málinu þann tíma, enda hefur allur undirbúningur málsins verið á þá lund að menn hafa viljað vanda til verka og byggja á traustum og ábyggilegum grunni, enda er tillagan mótuð á þeim forsendum að grundvöllurinn sé traustur.

En snúum okkur þá að efnislegum atriðum í þeirri tillögu sem liggur fyrir til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi í dag, fimm árum síðar, og skoðum aðeins hvaða atriði eru helst til álita. Fækkun ráðuneyta kallar eðlilega á skiptar skoðanir. Það hefur komið skýrt fram í yfirferð og umfjöllun um málið, bæði innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í þeim umsögnum, skýrslum og úttektum sem liggja fyrir og síðan í umræðunni í þingsal, að hagsmunaaðilar líta ólíkum augum á þessar tillögur. Þeir hagsmunaaðilar sem hafa haft greiðan, opinn, beinan aðgang að stjórnsýslunni í höfuðráðuneytum, hvort heldur í ráðuneytum sjávarútvegsmála eða landbúnaðarmála sérstaklega, óttast það og hafa sagt það berum orðum að hann þrengist, sá farvegur og sá aðgangur sem þeir hafa haft jafnvel beint að ráðherra varðandi hagsmunamál sín. Á sama tíma hafa aðrir hagsmunaaðilar úr atvinnulífinu, stórra atvinnustétta, í raun og veru miklu stærri atvinnustétta í heildina tekið en þeirra sem snúa að landbúnaði eða sjávarútvegi, allt aðra sýn á þessi mál, vegna þess að aðkoma þeirra og aðgengi að stjórnsýslu, ráðuneytum og ráðherra, málaflokks síns hefur ekki verið jafnopin og greið og þeirra sem hafa áhyggjur af breytingum í þessa veru.

Auðvitað hefur þessi aðgangur mótast af hefð og sögu. Við erum ekki að horfa til fortíðar. Við erum að horfa til framtíðar. Við horfum á breytta skipan og þróun í atvinnumálum á Íslandi. Þar eru breytingar auðvitað með þeim hætti að ráðuneyti, stjórnkerfið sjálft, verður að laga sig að þeim. Öll stjórnsýsla verður að vera lifandi. Hún þarf að vera í sískoðun vegna þess að við hljótum að taka mið af aðstæðum sem uppi eru hverju sinni, nákvæmlega á sama hátt og stjórnvöld verða að hafa umboð og stöðu til að ráða skipan ráðuneyta og lykilverkefna út frá þeim veruleika og þeirri stöðu sem er uppi í þjóðmálum hverju sinni. Nákvæmlega á þeim grundvelli byggja þær tillögur sem hér eru til umfjöllunar.

Horft er til eins atvinnuráðuneytis. Ekki er það nú hugmynd sem datt af himnum ofan í gær eða fyrir viku síðan. Hún hefur verið í umræðunni áratugum saman, en menn hafa ekki getað gengið fram og stigið þau lykilskref sem hefur þurft til að ná utan um þá hugsun fyrr en núna, ég segi því miður, vegna þess að atvinnulífið hefur tekið stórfelldum breytingum á allra síðustu árum og áratug og við verðum að mæta þeim breytingum.

Á sama hátt skiptir miklu máli að við horfum til þeirrar samþjöppunar í efnahags- og fjármálum ríkisins, ekki síst þegar við drögum lærdóm af þeirri stöðu sem hefur komið upp í afleiðingum efnahagshrunsins. Hvað þau atriði varðar vil ég sérstaklega benda á þann þátt mála sem kemur fram með skýrum hætti í nefndaráliti meiri hlutans, að ekki sé bara verið að styrkja og efla sérstaklega fjármálaráðuneytið með því að það fái aukin umsvif fjársýslunnar inn á sitt borð, heldur verði líka að styrkja stöðu Alþingis til að geta aflað óháðra lykilupplýsinga um stöðu efnahagsmála og þjóðarbúsins. Gera verður það með því að koma á fót sjálfstæðri og óháðri efnahagsstofnun, líkri þeirri sem Þjóðhagsstofnun var á sínum tíma, sem þingið hefur beinan opinn aðgang að. Það er hreint með ólíkindum, sérstaklega í því umhverfi sem við höfum lifað núna síðustu missiri og ár, að Alþingi hafi ekki þann vettvang, hvort heldur er þingflokkar eða einstakir þingmenn eða stjórnvöld, að geta sótt grunnupplýsingar í lykilmálum sem snúa að fjárhagslegum atriðum, efnahag samfélagsins og heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Ég held að umræðan hefði verið mun þroskaðri og betur og lengra á veg komin í ýmsum lausnum og leiðum ef við hefðum haft það verkfæri sem slík stofnun er.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Þá vil ég nefna líka sérstaklega þriðju breytinguna, sem lýtur að umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Auðvitað er ekki tilviljun að menn vilji sameina þá þætti á sama tíma og við erum að taka á lykilmálum sem snúa að þjóðarauð, þjóðareign og auðlindamálum. Eðlilega geta menn deilt um hvort þeir telji skynsamlegt eða ekki að auðlindaþáttur í stjórnsýslunni eigi að vera inni í atvinnuvegaráðuneytinu eða umhverfisráðuneyti. Það segir sig bara sjálft að menn hafa skiptar skoðanir á því, en færð eru full rök fyrir þeirri tillögu sem hér liggur fyrir að auðlindaþátturinn eigi að vera á umhverfissviði. Ég tek heils hugar undir þá tillögu.

Það er mikið lagt upp úr því, eins og hefur komið fram í umræðunni í dag og í kvöld, að stjórnvöld hafi framkvæmdarvaldið yfir skipan ráðuneyta og hafi stöðu til að bregðast við breyttum aðstæðum hverju sinni. Ríkisstjórn hverju sinni verður að hafa það umboð að geta metið þörf og aðstæður og hún verður að hafa frjálsar hendur.

Ef það þótti sjálfsagt fyrir fimm árum síðan að fara fram með þær breytingar sem þá voru samþykktar og með þeim hætti eins og þær voru afgreiddar og framkvæmdar í þinginu, hvað stendur þá í veginum fyrir því að við framfylgjum þeirri stefnu sem þar var mörkuð og lögð áhersla á að yrði framfylgt, eins og hér er lagt til í þeirri þingsályktunartillögu sem er nú til umfjöllunar?