140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:27]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem fram kemur í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar að það er breytt áhersla frá því sem var í upphaflegu plani, það er ekkert launungarmál. Þá var gengið út frá því að ráðuneytin yrðu níu. Í þeirri úttekt sem ég vísaði til áðan frá því í byrjun þessa árs var farið yfir þessa þætti og kom fram að allir þeir sem komið hafa að þessum málum, hvort sem það er Seðlabankinn, ráðuneyti eða aðrir hagsmunaaðilar í efnahagslífi, eru sammála um að viðskiptaráðuneytið í þeim búningi sem það hefur starfað sé of veikt. Það væru tvær leiðir í þeim efnum, annars vegar að byggja upp og styrkja ráðuneytið með einhverjum skynsamlegum útfærslum eða að velja hina leiðina, að sameina lykilþætti efnahags- og viðskiptaráðuneytisins með fjármálaráðuneytinu. Það var sú tillaga sem varð ofan á.