140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:32]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Birgir Ármannsson getum verið alveg sammála um að vinnubrögðin eru betri og hafa batnað verulega frá því árið 2007. (Gripið fram í: Uu, nei.) Það segir sig alveg í þessu máli eins og flestum öllum öðrum. En hv. þingmaður hefur að vísu skipt um skoðun varðandi það hvernig standa eigi að stjórnskipulagsbreytingum.

Ég hef sagt það í umræðunni í dag og kvöld að mikilvægt sé að stjórnvöld hverju sinni hafi umboð og stöðu til að fara fram með þá breytingu á ráðuneytaskipan sem menn telja nauðsynlega hverju sinni. Það á ekki að njörva það fast niður þannig að ekkert svigrúm sé til að móta starfið og verkskipanina í takt við þær áherslur og þau lykilmálefni sem stjórnvöld vilja koma fram hverju sinni. Aðstæður (Forseti hringir.) í samfélaginu eru líka síbreytilegar. Við þurfum að taka mið af því.