140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður reyndi að finna mótsögn í því að Sjálfstæðisflokkurinn væri að gagnrýna þær tilteknu breytingar sem lagðar eru til í þessari þingsályktunartillögu en hefði hins vegar á fyrri árum staðið að ýmsum breytingum á skipulagi Stjórnarráðsins.

Lögin um Stjórnarráð Íslands eru frá árinu 1969. Síðan höfum við gert á þeim lögum ýmsar breytingar. Það er alveg rétt, Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið að mörgum þeirra breytinga. Hann stóð meðal annars að þeim breytingum sem gerðar voru árið 2007. Það er hins vegar einn grundvallarmunur á. Það var gert á grundvelli lagafrumvarps sem var tekið í gegnum þingið. Hv. þingmaður segir að það veki athygli að þá hafi umræðan verið lítil um það mál. Endurspeglar það kannski ekki að ekki hafi verið jafnmiklar efasemdir um þær tilteknu efnisbreytingar og koma nú fram í þeirri miklu andstöðu sem víða sést gagnvart þeim breytingum sem verið er að boða á Stjórnarráðinu?

Að öðru leyti var annað lagafrumvarp lagt fram um haustið þar sem nánar var útlistað um stofnanaumhverfi og aðra skylda hluti (Forseti hringir.) sem lúta að þeim breytingum sem þá voru gerðar á Stjórnarráðinu. Talsvert meiri umræður voru um það mál.