140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir ræðuna. Hans flokkur boðaði nýtt Ísland, nýja hugsun o.s.frv. og svo er hv. þingmaður að skammast yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lært af hruninu.

Það varð nefnilega hrun og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í skýrslu þingmannanefndarinnar er sagt að stjórnsýslan hafi brugðist. Þess vegna verðum við að vanda okkur alveg sérstaklega með uppbyggingu Stjórnarráðsins sem eflaust var ekki gert 2007. Þessi samanburður er því afskaplega slæmur.

Niðurstaða landsdómsmálsins eða það litla sem menn töldu sér fært að dæma fyrir, refsingarlaust og málskostnaður greiddur, var einmitt stjórnsýslan. Þess vegna þurfum við að vanda okkur. Stjórnarandstöðunni ber að benda á veilur í því sem við erum að gera og mönnum brást að gera 2007.