140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er komin upp mjög alvarleg staða sem lýtur að þeirri vinnu sem stendur yfir um endurskoðun á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Fyrir atvinnuveganefnd liggja núna þrjú lögfræðiálit þar sem flutt eru rök fyrir því að þessi frumvörp feli í sér brot á allt að fjórum efnisgreinum stjórnarskrárinnar. Í gær var kynnt fyrir okkur viðamikil skýrsla sem unnin var af sérfræðingum að beiðni nefndarinnar til að leggja mat á þessi frumvörp og áhrif þeirra á fyrirtækin og í raun og veru á þjóðfélagið í heild.

Niðurstaða skýrslunnar er mjög skýr. Hún er sú að þessi frumvörp séu fullkomið fúsk, þau séu óbrúklegur grundvöllur til að endurskoða fiskveiðilöggjöfina. Það sem hér er verið að gera í rauninni er að verið er að leggja af stað í einhvers konar tilraunastarfsemi með sjávarútveginn, okkar mikilvægustu atvinnugrein, og enginn veit hvernig þessi tilraunastarfsemi mun enda þó að öll rök hnígi að því að hún muni enda mjög illa.

Í fyrsta lagi eru þessi frumvörp gersamlega ónothæf til að leggja á auðlindagjöld eins og þarna er gert ráð fyrir. Þar er byggt á gömlum gögnum sem með útfærslu sinni ýkja mjög stöðuna og munu valda því að gjaldheimtan verður úr öllu hófi. Það er sagt sem svo í þessu frumvarpi að verið sé að reyna að reikna út auðlindaarð. Niðurstaða sérfræðinganna er sú að svo sé ekki. Það er sagt í frumvarpinu að ætlunin sé að ná í 70% af svokallaðri auðlindarentu í ríkissjóð. Ef þeirri álagningaraðferð hefði verið beitt síðustu fimm árin væri niðurstaðan sú að í rauninni hefðu ekki verið innheimt 70% af þessari svokölluðu auðlindarentu heldur 140% og ég segi að það geti ekki hafa verið ætlunin af hálfu þeirra sem lögðu þetta frumvarp fram að ganga fram með þeim hætti. Niðurstaða skýrsluhöfunda er þessi: Áhrif frumvarpanna eru það mikil að þau munu leiða til gjaldþrota nokkuð stórs hluta íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. (Forseti hringir.) Ég tel þess vegna tímabært að hæstv. ríkisstjórn afturkalli þessi frumvörp.