140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að kynna mig til leiks og benda á að hér kem ég og fer með staðreyndirnar eftir að hv. þingmaður er búinn að taka upp tal helsta áróðursmeistara vinstri manna, Stefáns Ólafssonar, en svo kaldhæðnislega vill til að hæstv. velferðarráðherra fékk stjórnarformann Tryggingastofnunar, forstöðumann svokallaðrar Þjóðmálastofnunar, sem hefur haldið úti eilífðarvélarfundaherferð gegn hægri stefnum og gefið út heila bók um það til að taka út verk ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Einhver hefði sagt að það væri ekkert sérstaklega trúverðugt. Það er kannski þannig að næst verður útvarpsstjóri fenginn til að taka út útvarpsmálin og forstjóri Landsvirkjunar til að taka út orkumálin, en þó má segja að það væri betra vegna þess að þar er ekki um að ræða helstu hugmyndafræðinga vinstri manna. (Gripið fram í.)

Förum aðeins yfir staðreyndirnar, virðulegi forseti. Hér er þetta tekið út, Gini-stuðullinn á launatekjurnar hjá Vísbendingu. Hér liggja þessar staðreyndir fyrir og hvaða gögn eru notuð? Heildargagnasafn skattstjóra, ekki úrtak, allir, allt tekið. Og hvað gerist? Það er sú staðreynd að það er meiri ójöfnuður á launatekjum hjá hjónum í tíð þessarar stjórnar. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og hver og einn getur skoðað og ég hvet hv. þingmann til að benda á rangfærslur í þessari úttekt hjá Vísbendingu.

Auðvitað er það svo að ef eitthvað rétt og gott kemur frá þessum ágæta prófessor þá á auðvitað að skoða það. Ég er ekki að segja að það sé allt saman vitleysa, alls ekki. En ég hvet ykkur hins vegar til að lesa viðtal (Forseti hringir.) við hann sem er tekið af Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur í blaði stéttarfélaga og þegar þið hafið lesið það viðtal metið þá hvort hér er um að ræða eingöngu fræðimann sem vill koma staðreyndum áleiðis eða hvort hér er kannski um að ræða mjög pólitískan (Forseti hringir.) einstakling í miklu stríði.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á tímamörk í þessari umræðu og biður þingmenn um að virða þau.)