140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Við höfum orðið á undanförnum sólarhringum enn einu sinni vitni að framgöngu Sjálfstæðisflokksins sem leggur sig í líma við að koma í veg fyrir að þingið geti lokið störfum með sómasamlegum hætti. Í gær var því borið við að ekki væri hægt að komast áfram að brýnum málum heimilanna vegna þess að það væri umdeilt mál á dagskrá, breytingar á Stjórnarráði Íslands, og áhugi stjórnarflokkanna á því væri svo mikill að hann kæmi í veg fyrir að hægt væri að fara í mál sem snertu heimilin.

Ég vil vekja athygli á því að á mánudaginn var komu þessir sömu hv. þingmenn í veg fyrir að mál, sem snerta heimilin óneitanlega verulega mikið, kæmust til nefndar. Það mál sem ég er að vekja athygli á er 5. mál á dagskrá í dag, þ.e. niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, stofnstyrkir, frádráttarákvæði og fleira sem snertir köld svæði. Það er nöturlegt að það skuli hafa verið þingmenn frá þessum köldu svæðum sem komu í veg fyrir það á mánudaginn að hægt væri að ljúka umræðu um þetta mál því að það eina sem þá var á dagskrá var málþóf. Því miður lítur út fyrir að fulltrúar þessa ágæta stjórnmálaflokks, Sjálfstæðisflokksins, með dyggri aðstoð nokkurra þingmanna Framsóknarflokks, ætli sér að eyða öllum maímánuði með sama hætti, að vera á móti hverju einasta máli, líka þeim sem við erum öll sammála um eins og raforkustyrkjunum til kaldra svæða. Hvað á þetta eiginlega að þýða? Eða halda menn að þjóðin sjái ekki í gegnum ykkur, kæru þingmenn? Ég held að þið ættuð að hugsa ráð ykkar og breyta um framgöngu og sinna þingstörfum með öðrum hætti. (Gripið fram í.)