140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur vil ég segja eða biðja hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að fara með þuluna ágætu fyrir hana á eftir.

Í morgun kom sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins á fund atvinnuveganefndar og fram kom að við værum hér á landi að deila um hvernig skipta eigi umframhagnaði í greininni á meðan í Evrópu sé verið að reyna að breyta kerfinu til að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja fátæks fólks í sjávarbyggðum, sóun auðlindar með brottkasti og ofgnótt fiskiskipa. Evrópuþingmennirnir spurðu í forundran hverju við værum eiginlega að breyta. Og hverju erum við að breyta?

Umsagnir sem hafa komið um núverandi frumvörp í sjávarútvegi eru afar neikvæðar og sýna fram á að frumvörpin hafi mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegsfyrirtækin í landinu og byggðirnar í landinu og sé jafnvel snúið á þann veg að við endum eins og staðan er í Evrópu núna.

Í gærkvöldi átti atvinnuveganefnd fund með þeim skýrsluhöfundum sem nefndir voru í ræðum hv. þingmanna Einars K. Guðfinnssonar og Kristjáns L. Möllers. Þar komu fram, og ég verð að segja að ég er svolítið undrandi á orðum hv. formanns atvinnuveganefndar um að þar hafi ekki komið fram alvarlegir hlutir þegar í ljós kom að í frumvarpinu er innbyggð skekkja sem gerir það að verkum að það sem hafði verið sent til Alþingis var ekki um 70% skatt á greinina heldur 140% sem sýnir náttúrlega hversu illa þetta var unnið. Ég velti því fyrir mér þegar ég sat á þessum fundi hvort það hefði ekki verið skynsamlegt fyrir ríkisstjórnina og þá sem sömdu þetta frumvarp að fá skýrsluhöfundana til sín í upphafi vinnunnar til að fara yfir þessi mál því að þetta var tveggja tíma frábær fyrirlestur um það hvernig greinin er og hvaða breytur við megum ekki gera til að enda ekki í sama fari og sjávarútvegur er í allri Evrópu.