140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er í raun aumlegt að hlusta hér á stjórnarþingmenn reyna að réttlæta þetta sjávarútvegsmál, eins og það liggur fyrir nú, eftir þá svörtu skýrslu sem við fengum um málið í gærkvöldi. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta, að alvarleg villa hafi komið í ljós við greiningu á frumvarpi til laga um veiðigjöld sem leiði til verulegs ofmats á núverandi skilyrði. Það er mat höfunda að tilgangslaust sé að meta áhrif frumvarpsins í óbreyttri mynd. Ekkert fyrirtæki sé líklegt til að standa undir þeim álögum sem í því felast. Mest séu áhrifin á fyrirtæki sem eingöngu eru í útgerð og verði skuldastaða þeirra óviðráðanleg vegna áhrifa frumvarpanna. Þetta eigi mest við um lítil og meðalstór fyrirtæki um allt land. Þetta muni hafa neikvæð áhrif á þau fyrirtæki sem hafa hlutfallslega mikinn þorskkvóta og mikil áhrif á öll fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu. Muni því aukast líkur á að þau ráði ekki við skuldir sínar. Og það segir hér að mat höfunda sé að frumvarpið hafi skipulega ofmetið rentu sem nemi tugum prósenta og hefði henni verið beitt á undanförnum árum gæti hún hafa verið metin um 140% af metnu veiðigjaldi.

Það er aðeins komið inn á strandveiðar í þessari skýrslu líka og er ágætt að nefna það hér vegna þess að strandveiðar hófust fyrir nokkrum dögum. Um strandveiðar segir í þessari umsögn að þær leiði til kapphlaups um afla sem hækki sóknarkostnað, lækki verðmæti afla og hvetji til brottkasts meðafla. Það séu of margir sem stundi veiðarnar og rentunni sem annars hefði orðið til sé sóað í offjárfestingu. Þetta eru staðreyndir um þessar mikilvægu strandveiðar sem stjórnarþingmenn tala fyrir og við sjáum afleiðingarnar á mörkuðum í dag.

Það var ágætisverð á þorski fyrir mánaðamótin á mörkuðum. Það hrundi í gær og það fer sennilega enn neðar í dag. Það var í kringum 330–350 kr. þegar leið á aprílmánuð, sem er þó frekar lágt, en það var komið niður í 290 kr. í gær og það fer væntanlega (Forseti hringir.) niður fyrir 270 kr. í dag. Þetta eru afleiðingarnar, áhrifin á íslenska sjómenn og (Forseti hringir.) verðmætasköpun greinarinnar.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á ræðutímann, hann er 2 mínútur í þessari umræðu.)