140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í morgun skiluðu tveir sérfræðingar, sem stjórnvöld hafa haft við höndina við að vinna sjávarútvegsfrumvörpin tvö sem hér eru til umræðu, skýrslu sinni í gær til atvinnuveganefndar þar sem koma fram margar afar athyglisverðar upplýsingar. Í skýrslu þeirra kemur fram ákveðin ábending varðandi galla í reikniverki sem fyrst og fremst ræðst af því sem hér gerðist haustið 2008, þ.e. efnahagshruninu og falli krónunnar, sem ýkja mjög öll viðbrögð hvað þetta varðar. Auðvitað verður tekið tillit til þeirrar ábendingar þannig að markmið frumvarpsins náist.

Það sem er hins vegar athyglisverðast í skýrslu tvímenninganna er staða sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi. Í skýrslunni kemur fram að um 40% af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi eru annaðhvort ógjaldfær, nánast gjaldþrota, eða mjög illa stödd nú þegar. Í skýrslunni kemur sömuleiðis fram að 75% af þeim fyrirtækjum sem sérfræðingarnir skoðuðu í krókaaflamarkskerfinu eru ógjaldfær eða mjög illa stödd nú þegar.

Þetta eru auðvitað mjög alvarlegar upplýsingar og mjög sláandi niðurstöður í skýrslu sérfræðinganna sem við ættum að huga að og reyna að átta okkur á hvernig í ósköpunum stendur á því að sjávarútvegsfyrirtækin eru eins illa stödd og þeir leggja mat á í skýrslu sinni og færa rök fyrir. Það er alvarlegt, það getur leitt til þess að þjóðin nái ekki þeirri sanngjörnu rentu út úr auðlind sinni sem hún á skilið að fá.

Nokkrum dögum áður fengum við sömuleiðis skýrslu frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða sem komst að sömu niðurstöðu varðandi sjávarútveg á Vestfjörðum. Eins og staðan var þar árið 2009 var nánast hvert einasta sjávarútvegsfyrirtæki svo illa leikið, að þeirra mati, að það var nánast óstarfhæft (Forseti hringir.) og ófært um að vinna sig út úr þeim skuldum og skuldbindingum sem það stóð fyrir á árinu 2009. (Forseti hringir.) Þetta er alvarlegasta niðurstaða skýrslunnar sem atvinnuveganefnd fékk í gær og um þá niðurstöðu eigum við að ræða.