140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[11:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Töluvert hefur verið rætt um sjávarútvegsfrumvörpin út frá byggðasjónarmiðum. Mig langar að vitna aðeins til gagna frá Hagstofu Íslands sem sýna fram á að á síðasta ári fækkaði íbúum á Vestfjörðum um 1,2%. Fækkun varð einnig á Norðurlandi vestra, 2,6%.

Í Bæjarins besta í gær var fjallað um það að nemendum við grunnskólann á Ísafirði hefði fækkað úr 500 í 400 á einungis fjórum árum. Það hefur sem sagt fækkað um 100 nemendur á fjórum árum við grunnskólann á Ísafirði. Einn ágætur kennari segir í samtali við Bæjarins besta, með leyfi frú forseta:

„Allra næstu ár skera úr um það hvort Ísafjörður framtíðarinnar verður einhvers konar safn sem fólk af höfuðborgarsvæðinu, aðallega brottfluttir Ísfirðingar, kemur að heimsækja annað hvert ár til að rifja upp gamlar minningar og fræðast um liðna tíð, bær þar sem enginn býr að vetri til en lifnar við á vorin og setur í sig í fortíðarstellingar, til að þjóna ferðafólki frá Reykjavík og útlöndum.“

Frú forseti. Þetta er sagt og skrifað af heimafólki og er skrifað eftir að stjórnarfrumvarp um fiskveiðistjórnarkerfið kom fram, en samkvæmt markmiðum þess á að styrkja og efla byggð um allt land. Mig langar að setja tölurnar í samhengi. Áætlað veiðileyfagjald á Vestfirði, samkvæmt skýrslu sem nokkrir hafa verið með til umfjöllunar, er 1,2 milljarðar á ári. Frú forseti, það er auðvitað ekki með nokkrum hætti hægt að segja að þessi frumvörp séu skilaboð til þeirra sem búa á þessum svæðum um að einhvers annars sé að vænta í byggðamálum. Gjaldið er hreinn og klár landsbyggðarskattur, rétt eins og fjöldi sveitarfélaga hefur sagt og ályktað um. Það er ekki hægt að halda því fram í þingsal aftur og aftur að hlutir sem eru (Forseti hringir.) svartir séu hvítir. Það er ekki þannig, frú forseti og tölurnar tala sínu máli. Heimafólkið hefur talað og (Forseti hringir.) það liggur algjörlega skýrt fyrir að svart er ekki hvítt eins og stjórnin heldur fram.