140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta fer að verða endurtekið efni hér á hverjum degi. Ég neyðist því til að flytja þingheimi sömu ræðuna dag eftir dag og ég veit að hv. þingheimur gleðst og fagnar því.

Það er ekki skortur á þingfundartíma eða ónógur fundartími fram á nótt sem er valdur að þeim vandræðum sem hæstv. ríkisstjórn er komin í með þau mál sem hún ætlar sér að klára fyrir sumarhlé. Það er ekki vandamálið. Eins og ég hef sagt áður er vandamálið skortur á forgangsröð.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði í gær að forgangsmál ríkisstjórnarinnar væru nokkur og um ekkert yrði samið fyrr en þeim væri lokið. Þetta tel ég mikið óráð. Ef mönnum er einhver alvara með því að ætla sér að klára mál sem koma heimilunum og fyrirtækjunum í landinu til góða er lausnin ekki (Forseti hringir.) að halda fundi fram á nótt. Lausnin er fólgin í því að fara að forgangsraða. (Gripið fram í: Tala minna, gera meira.)