140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:14]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta lítur einhvern veginn svona út: Stjórnarandstaðan er að taka þingið í gíslingu, (Gripið fram í.) hér á að stöðva allt til að klekkja á ríkisstjórninni. Menn hafa ekki heill almennings í huga.

Fram undan er mikið verk hjá Alþingi og nú þarf að afgreiða mörg mál, en hvert skyldi vera normið? Jú, á síðustu þremur vikum vorþinga undanfarin tíu ár hafa verið afgreidd á bilinu 70–100 mál og þau orðið að lögum frá þessum sal. Það þýðir að ljóst er að við munum á næstu þremur vikum afgreiða úr þessum þingsal einhvers staðar á bilinu 70–100 frumvörp eða þingsályktunartillögur. Og ég get alveg sagt við hv. þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins að forgangslisti þingflokka stjórnarflokkanna með þeim 70–100 málum getur verið tilbúinn seinni hlutann í dag. En þá er líka eins gott fyrir okkur að hefja hér vinnu og fara að afgreiða mál vegna þess að heill almennings er í húfi. Hér þarf að ljúka málum en ekki stöðva þau bara til að stöðva þau. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)