140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við munum ekki ljúka 70–100 málum á þessu vorþingi og ástæðan er sú sem heyrðist í frammíkalli áðan, að menn eigi að tala minna og gera meira. (VigH: Rétt.) Það þarf að undirbúa málin betur (Gripið fram í: Já.) og það er galið ef við höfum afgreitt 70–100 mál á tveimur, þremur vikum. Á dagskrá þingsins og í pípunum hjá hæstv. ríkisstjórn eru mál er snerta atvinnuuppbyggingu, efnahagsmál, öryggi borganna og þau mál ættum við að setja á dagskrá, skuldamál heimilanna. Það eru mál sem voru á dagskrá. Það eina sem hefur breyst frá því í gær er að nú eru komin tvö ný mál inn en forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er enn sú sama, að þvælast í að breyta Stjórnarráðinu síðasta árið — mér liggur við að segja síðasta daginn vegna þess að það er enginn tími til að sú stefna sem ríkisstjórnin leggur hér upp með skili neinum árangri, bara 250 millj. kr. viðbótarkostnaði í byggingarbreytingar. (Gripið fram í: Rétt.)