140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að þetta þing er í miklum hægagangi og hér er mikið málþóf í gangi. (Gripið fram í.) Stjórnarandstaðan, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hefur eitt markmið, það er að koma í veg fyrir að þau mál sem ríkisstjórnin vill að gangi fram á þessu þingi nái fram að ganga. (Gripið fram í: Vitleysa.) Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa það eitt markmið að koma þessari ríkisstjórn frá. (Gripið fram í: Rétt. …) Þeir vilja ekki að þau mál sem þjóðin hefur lengi beðið eftir og við erum með á dagskrá okkar nái fram að ganga.

Ég vil minna á að á síðastliðnum mánuði hafa einungis tíu mál verið afgreidd frá þinginu, aðeins tíu mál. Það var alvanalegt að mál væru afgreidd á færibandi meðan Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn stjórnuðu nokkrum dögum áður en þingi var slitið. Það er ekki til fyrirmyndar en þetta eru ekki fleiri mál, hér er kannski um að ræða 50–70 mál. (Forseti hringir.) Ég vil líka nefna það að ef menn ætla að klára þing 31. maí eins og dagskráin segir til um þá er það vel hægt (Forseti hringir.) ef vilji er fyrir hendi en ef við þurfum að vera lengur og fram í júní þá gerum við það, jafnvel fram í júlí. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Þetta er frábært.)