140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Maður er tregur til að taka þátt í þessari umræðu. Hér er búið að slátra upp undir hálftíma í umræðum um eina einfalda atkvæðagreiðslu, hvort hér megi standa fundur fram á kvöldið. Satt best að segja er maður ansi hugsi yfir þeim svip sem þessi stofnun býður upp á af sjálfri sér og því hvernig menn rægja sinn eigin vinnustað upp á hvern einasta dag. Það er ekki hægt að kalla þetta sjálfsgagnrýni sem þingið ástundar. Þetta er sjálfsníð.

Mér finnst makalaust að heyra hvernig menn lýsa störfum þingsins. Það er eins og þeir átti sig ekkert á því hvernig vinnuferli mála er. Þau koma fram á hausti, vetri og fram eftir útmánuðum, eru í nefndum, eru í vinnslu og síðan rennur upp uppskerutíminn, afgreiðslutíminn. Þannig er það og hefur alltaf verið og það er innbyggt í ferlið að undir lok hvers þinghalds uppskera menn af því starfi sem staðið hefur allan veturinn og afgreiða mál. Það er innbyggt í ferlið (Forseti hringir.) og ekkert athugavert við það. Það er ekkert frábrugðið við stöðuna á þingi nú miðað við það sem verið hefur árum og þess vegna áratugum saman sem sumir (Forseti hringir.) þekkja nema það eitt að núverandi stjórnarandstaða virðist ganga lengra en ég held að maður hafi nokkru sinni áður séð í því (Forseti hringir.) að ætla að halda þinginu í hreinni gíslingu og stoppa hér allt. Þá gerir stjórnarandstaðan það (Forseti hringir.) en þá ber hún líka ábyrgð á því.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á ræðutímann, ræðutímamörk eru ein mínúta.)