140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér fannst hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fara svolítið frjálslega með þegar hann lýsti hlutunum. Ég hvet þá sem hafa áhuga á að skoða til dæmis ræðutímann hjá þeim hv. þingmanni og þessum ágæta hv. þingmanni hér eða þessum þarna og meta hvort það sé mikið samræmi í því sem þeir segja núna og hvernig þeir hafa hagað sér í þinginu þá áratugi sem þeir hafa verið hér.

Það er ástæða fyrir því að mál eru send til umsagnar, það er til að fá sérfræðiþekkingu víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Það er ástæða fyrir því að við tökum ákveðinn tíma í þetta, það er vegna þess að þá eru meiri líkur á að við vinnum þetta vel. Við afgreiddum hér lög um heilbrigðisstarfsmenn í góðri sátt og það er búið að vinna að þeim í nokkur ár. Það segir sig sjálft að ef við ætlum ekki að vinna þetta svona og bendum ekki á hvað er að erum við ekki að vinna vinnuna okkar, þá erum við ekki að vinna eins og (Forseti hringir.) löggjafarsamkoman á að gera.

Við erum búin að gera nóg af mistökum. Af hverju vill hæstv. ráðherra gera fleiri?